Frétt

Miðlunarlón draga umtalsvert úr áhrifum flóða

29. maí 2007

Stórflóð varð í Þjórsá í desember 2006 á sama tíma og stórflóð urðu á vatnasviði Hvítár og Ölfusár. Flóðsins í Þjórsá var hins vegar að engu getið í fjölmiðlum. Helsta ástæðan er sú að Þjórsá flæddi ekki yfir bakka sína og ekki urðu skemmdir af völdum flóðsins í byggð.

Dagana fyrir flóðið hafði langvarandi norðanátt staðið yfir með kulda og talsverðri ofankomu. Var því jarðvegur frosinn og nokkur snjóalög. Þann 18. desember breyttist veður snögglega og gerði mikil hlýindi. Þar sem jörð var freðin flæddi leysingavatnið beint út í árfarvegi.

Flóðið í Þjórsá náði hámarki sínu við Búrfell um miðjan dag þann 20. desember en við Urriðafoss rétt eftir miðnætti sama dag. Vatnsborð í miðlunarlónum á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár var ekki í hæstu stöðu þegar flóðið hófst þannig að borð var til að taka við vatni. Minni miðlunarlónin fylltust hvert af öðru meðan á flóðinu stóð og dró þannig mjög úr flóðtoppum. Vatnsborð stærsta lónsins, Þórisvatnsmiðlunar, hækkaði stöðugt en það fylltist ekki. Meðalrennsli Þjórsár við Urriðafoss á þessum árstíma er um 300 m3/s en í flóðinu mældist það 1.630 m3/s.

Hæsta mælt flóð í Þjórsá til þessa tíma kom í mars 1948 með flóðtopp um 2.100 m3/s. Í því flóði flæddi Þjórsá yfir bakka sína og 7 bæir á Skeiðum voru umflotnir. Á sama tíma var einnig stórflóð í Hvítá. Flóðið í Þjórsá við Urriðafoss í desember 2006 mældist 1.630 m3/s. Ef flóðtoppurinn er leiðréttur fyrir söfnun vatns í lón má ætla að hann hafi verið um 600 m3/s hærri og hafi verið jafnhár eða hærri en flóðtoppurinn frá 1948.

Flóð við ísskolunarmannvirkin í Þjórsá
Við ísskolunarmannvirkin fyrir ofan Búrfellsstöð rann vatnið
í stríðum straumum þann 20. desember 2006.

Ástæða þess að Þjórsá flæddi ekki yfir bakka sína í flóðinu í desember 2006 er sú að á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár eru mörg miðlunarlón, 11 talsins. Erfitt getur verið að gera tölulegt mat á því hversu mikið flóðtoppur jafnast af völdum lónanna. Auðveldast er að meta það með því að nota líkan sem líkir eftir rennsli vatns um farvegi og lón, svokallað flóðrakningarlíkan. Í verkefni sem nýlega var unnið hjá Landsvirkjun voru tvö flóð í Þjórsá einmitt rakin með slíku líkani. Annað flóðið er mikið vorflóð sem kom í ána 1992. Á línuritinu að neðan er sýndur ferill flóðsins í líkaninu með og án mannvirkja sem hafa áhrif á framgang þess.

 

Línurit sem sýnir feril flóðs í Þjórsá
Á ritinu hér að ofan er ferill flóðs rakinn frá 19. maí til 28. júní 1992. Rauða línan sýnir
flóðið með þeim stíflum og miðlunarlónum sem eru í árfarvegi Þjórsár. Í rauða
ferilinum er líkt eftir flóðinu eins og engin mannvirki hefðu verið á vegi flóðsins.


Í upphafi þess flóðs var vatnsborð lóna fremur lágt enda hefst það snemma vors. Mannvirki draga mjög úr fyrstu tveimur flóðtoppunum, um 400 m3/s og um 500 m3/s. Þegar komið er lengra fram á sumarið dregur minna úr flóðtoppunum enda eru lónin orðin full á þeim tíma. Benda má á að þegar flóðið var í rénun eftir 16. júní var rennsli heldur hærra með mannvirkjum en án þeirra. Miðlunarlóna jafna því rennsli bæði í flóðaatburðum og þegar rennsli er lítið.

Fréttasafn Prenta