Frétt

Er verð á raforku til almennings á Íslandi hátt?

17. október 2006

Frétt Fréttablaðsins bar yfirskriftina "Raforka dýrari hér en víðast í V-Evrópu". Í undirfyrirsögn sagði að raforkuverð hér á landi væri yfir meðallagi miðað við hvað tíðkaðist í Vestur-Evrópu. Vísað er í skýrslu Orkustofnunar Energy in Iceland þar sem meðal annars er borið saman raforkuverð til heimila í ýmsum Evrópulöndum.

Í athugasemd við fréttina sem kemur fram á vef Orkustofnunar segir að í skýrslunni hafi komið fram að raforkuverð til heimila væri sambærilegt við það sem gerist í mörgum löndum Vestur-Evrópu sem notuð eru til samanburðar. Mynd sem notuð var til samanburðar á raforkuverði sýndi verð í janúar umreiknað í evrur, en þá var gengi íslensku krónunnar gagnvart evrunni hátt. Samanburður við önnur lönd er alltaf háður gengi krónunnar á hverjum tíma.

Einnig segir í athugasemd Orkustofnunar að samanburður á raforkuverði í október verði mun hagstæðari fyrir Íslendinga, þar sem krónan hefur veikst verulega gagnvart evrunni frá áramótum. Raforkuhækkanir hafi einnig verið miklar í nágrannalöndunum á sama tíma og hafi þær einungis verið lítilsháttar hér á landi og töluvert undir verðlagsbreytingum.

Í frétt Fréttablaðsins eru viðmælendur blaðsins sammála um að á meginlandi Evrópu megi búast við breytingum á raforkuverði á næstu misserum sem muni verða Íslandi í hag í samanburði við önnur lönd í Evrópu.

 

Fréttasafn Prenta