Frétt

Skipulagsstofnun fellst á Norðlingaölduveitu með skilyrðum

13. ágúst 2002

Í úrskurðarorðum í skýrslu Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunum heimili byggingu virkjunarinnar í 575 og 578 m hæð með þeim skilyrðum að í leyfi iðnaðarráðherra til vatnsmiðlunar verði tryggt að óbreytt vatnsrennsli verði í fossum í farvegi Þjórsár neðan stíflu yfir hádaginn á sumrin og að framkvæmdaraðili fylgist reglulega með vatnsborði Norðlingaöldulóns og stýri því þannig að breyting á vatnsfleti verði innan lónstæðis. Þannig verði tryggt að hækkun lóns að vetri og vori hafi ekki í för með sér að vatn fæði út fyrir lónstæðið og yfir gróið land og að lónið verði fullt á meðan jörð er ófrosin og snjólaus.

Þá skal framkvæmdaraðili standa að reglubundinni vöktun á þróun aurkeilu í Norðlingaöldulóni og hækkun áraura ofan þess og grípa til mótvægisaðgerða leiði vöktun í ljós að hætta verði á því að Þjórsá flæði um víðara svæði en hún hefur gert. Vöktun og mótvægisaðgerðir skulu vera framkvæmdar í samráði við sveitarstjórnir og Náttúruvernd ríkisins.

Þá er það skilyrði sett fyrir byggingu Norðlingaölduveitu með lónshæð 575 m að setlón verði gert vestan við Þjórsárlón en vatnsborð setlónsins má ekki vera meira en 2,5 km og vatni úr því má ekki veita í annan farveg en Vesturkvíslar og Litlu-Arnarfellskvíslar. Endanlega staðsetningu setlónsin á að ákveða í samræmi við sveitarstjórn og Náttúruvernd ríkisins en við ákvörðun um staðsetningu lónsins skal þess gætt að raska gróðri sem minnst.

Þá skal framkvæmdaraðili standa að reglubundinni vöktun á jarðvegsrofi og sandgangi með allri strandlínu Norðlingaöldulóns og með Þjórsá niður að Sultartangalóni og grípa til mótvægisaðgerða komi rof í ljós samkvæmt áætlun sem framkvæmdaraðili vinnur í samvinnu við sveitarstjórnir, Landgræðslu ríkisins og Náttúruvernd ríkisins.

Framkvæmdaraðila er einnig gert að tryggja eftirlit með umferð um Norðlingaöldustíflu og að lokað verði fyrir umferð um stífluna a.m.k. frá 1. maí til 10. júní í samráði við sveitarstjórnir og Náttúruvernd ríkisins.

Úrskurður Skipulagsstofnunar í heild >>

 

Fréttasafn Prenta