Frétt

Nýtt fyrirtæki á fjarskiptasviði

19. ágúst 1999

TETRA er ný kynslóð stafrænna farstöðvakerfa, sem er að ryðja sér til rúms í Evrópu og leysir m.a. af hólmi eldri gerðir far- eða talstöðvakerfa. Um er að ræða staðal saminn af ETSI (Staðlastofnun Evrópu á fjarskiptaviði) á sama hátt og GSM staðlarnir. Sá munur er þó á TETRA og GSM að hægt er skilgreina lokaða notendahópa sem hafa opið samband sín á milli auk þess sem ýmsar öryggiskröfur vegna rekstrar kerfisins eru mun meiri. TETRA hentar þannig mjög vel í þeim tilfellum þar sem samskipti þurfa að vera samtímis milli margra notenda eða notendahópa, bæði fyrir tal og gagnaflutning.

Notendur TETRA-kerfa eru m.a. lögregla, slökkvilið, björgunarsamtök, sveitarfélög, veitufyrirtæki, flutningaaðilar, verktakar og aðrir þeir sem þurfa að vera í hópsambandi sín á milli, en hafa hingað til notað hefðbundnar talstöðvar.

Eigendur hins nýja fyrirtækis eru Landsvirkjun, Landssími Íslands hf. og TölvuMyndir hf. og á hvert fyrirtæki jafn stóran hlut. Þátttaka LV byggir á því fyrirheiti ríkisstjórnarinnar að leggja fram á Alþingi á komandi hausti frumvarp sem heimilar Landsvirkjun að veita öðrum aðilum aðgang að fjarskiptakerfi sínu.

Með samstarfi þessara þriggja aðila hefur verið skapaður grundvöllur fyrir kröftugri uppbyggingu kerfisins, en reynsla eigenda þess af rekstri fjarskiptakerfa, sölu- og markaðssetningu fjarskiptalausna og gerð hugbúnaðarkerfa mun tryggja árangursríka uppbyggingu kerfisins.

Undirbúningur að stofnun félagsins hefur staðið yfir alllengi og hafa bæði innlendir og erlendir ráðgjafar unnið að tækni- og hagkvæmniúttektum á vegum hins nýja félags. Niðurstöður hagkvæmniathugana liggja nú fyrir og á grundvelli þeirra var ákveðið að taka þátt í útboði vegna TETRA-þjónustu fyrir Ríkislögreglustjóraembættið og Slökkvilið Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir að notaður verði fjarskiptabúnaður frá finnska fyrirtækinu Nokia til að veita þjónustuna, en Nokia er í fararbroddi þeirra framleiðenda sem framleiða búnað byggðan á TETRA-staðlinum.

Í stjórn TNets ehf. eru Þórður Guðmundsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsvirkjunar, sem jafnframt er stjórnarformaður, Bergþór Halldórsson, framkvæmdastjóri fjarskiptanets Landssímans, og Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri TölvuMynda hf. Framkvæmdastjóri verður Guðmundur Gunnarsson, sem starfað hefur sem fjarskiptastjóri LV.

Upplýsingar um eigendur:
Landssíminn starfrækir ýmis þráðlaus fjarskiptakerfi, þ.m.t. farsímakerfin GSM og NMT, sem eru með vel á annað hundrað þúsund notendur samtals. Fyrirtækið telur það henta því vel að taka þátt í rekstri TETRA-farstöðvakerfis, samhliða rekstri núverandi kerfa, og að hið nýja kerfi fullnægi ýmsum sérkröfum notenda betur en önnur kerfi.
Landsvirkjun hefur um langt skeið rekið umfangsmikið fjarskiptakerfi fyrir starfsemi sína. Fjarskiptakerfið nær um allt land til flestra starfsstöðva fyrirtækisins og er notkun þess margþætt. Meðal notkunarsviða má nefna samskipti vegna fjarstýringar og gæslu stöðva, samtengingar tölvuneta og símstöðva, sérhæfð samskipti vegna varnarbúnaðar háspennulína, myndsendingar o.fl.
TölvuMyndir hf. er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins með 92 starfsmenn. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum unnið að mörgum af stærstu hugbúnaðarverkefnum sem unnin hafa verið hérlendis.

Fréttatilkynning
Reykjavík 19. ágúst 1999

 

Fréttasafn Prenta