Frétt

Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur taka fyrsta vetnisfólksbílinn á Íslandi í notkun

11. júlí 2007

Þetta er fyrsti fólksbílinn sem fer í almenna umferð á Íslandi og knúinn er með vetnisrafala. Hann verður í sameiginlegri notkun Orkuveitunnar og Landsvirkjunar.

SMART-H2
Íslensk NýOrka hefur ásamt VistOrku, sem orkufyrirtækin eiga stóra hluti í, samið um að útvega 11 vetnisbíla til viðbótar, af mismunandi gerð, sem afhentir verða ýmsum aðilum síðar á árinu. Verkefni þetta heitir SMART-H2 og markmiðið er að fjölga vetnisbílum á Íslandi í a.m.k. 30 fyrir 2010.

Afhending vetnisfólksbíls

Vetnisbíllinn
Bíllinn sem DaimlerChrysler afhenti í dag er Mercedes Benz af A-class gerð og ryðja orkufyrirtækin í sameiningu brautina í akstri vetnisfólksbíla með rekstri bílsins. Fram til 1. ágúst nk. verða starfsmenn fyrirtækjanna í þjálfun í rekstri og viðhaldi vetnisbílsins, en síðan fer hann í almennan rekstur sem þjónustubíll. Fyrirtækin leigja bílinn af DaimlerChrysler og munu annast gagnaöflun um rekstur hans og frammistöðu.

Einsdæmi í heiminum

Um er að ræða mikilvægan áfanga að því markmiði sem ríkisstjórn Íslands hefur sett, að Ísland verði fyrsta samfélagið til að reiða sig eingöngu á endurnýjanlega orku. Fólksbílaverkefnið kemur nú í eðlilegu framhaldi af vetnisstrætisvögnunum sem reyndust vel. Samstarf orkufyrirtækja í framþróun í orkumálum hefur verið mikið og hafa Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur bæði markað sér stefnu um að vera fyrirmynd í umhverfismálum. Samgöngur eru þar mikilvægur þáttur og með vistvænni bílaflota, sem getur nýtt innlendar vistvænar orkuauðlindir, er tekið skref í rétta átt.

Friðrik Sophusson í vetnisfólksbíl

Lipur smábíll
Nýi vetnisbíllinn er lipur smábíll frá DaimlerChrysler og verður hann nýttur innan þjónustuflota fyrirtækjanna. Bíllinn tekur vetni á vetnistöðinni á Grjóthálsi þar sem það er unnið úr vatni með rafmagni. Bíllinn tekur 4 farþega og er bæði efnarafalanum og vetninu komið fyrir í undirvagninum svo að farangursrýmið er af sömu stærð og í bensínbílum sömu gerðar. Bíllinn dregur 160 km á hverjum tanki. Viðbragðstíminn úr núlli í hundrað km/klst er 14 sekúndur og hægt er að aka honum á allt að 140km/klst. Rafhreyfillinn er gíralaus með 65 kW afl.

Fréttasafn Prenta