Frétt

Landsvirkjun og Listasafn Sigurjóns Ólafssonar gera með sér samstarfssamning

10. ágúst 2007

 Birgitta Spur og Friðrik Sophusson við undirritun samstarfssamnings 

Birgitta Spur og Friðrik Sophusson við undirritun samningsins í dag. Saman virða þau fyrir sér listaverkið Hávaðatröllið eftir Sigurjón Ólafsson.


Leiðir Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara og Landsvirkjunar lágu saman skömmu eftir stofnun fyrirtækisins árið 1965 þegar Sigurjón var fenginn til að gera lágmynd fyrir Búrfellsstöð, fyrstu vatnsaflsvirkjun sem Landsvirkjun byggði.

Lágmynd Sigurjóns sem ber nafnið Búrfellsvirkjun er hin stærsta sinnar tegundar hérlendis og merkileg, bæði fyrir listferil Sigurjóns og einnig fyrir þá tækni sem hann beitti við gerð hennar. Það listaverk hefur verið táknmynd íslenskra vatnsaflsvirkjana og Landsvirkjunar frá fyrstu tíð. Sigurjón gerði einnig stóra frístandandi mynd á hlaði Búrfellsstöðvar sem nefnist Hávaðatröllið.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar undirbýr og setur upp veglega sýningu sumarið 2008 í Búrfellsstöð, þar sem megináhersla verður lögð á listaverk Sigurjóns þar, tilurð þeirra og vinnubrögð við gerð þeirra.

Markmið samstarfsins er að vekja athygli á lífsstarfi Sigurjóns Ólafssonar og tengslum hans og Landsvirkjunar. Listasafn Sigurjóns og Landsvirkjun ætla að minnast aldarafmælis listamannsins með veglegum hætti.

Landsvirkjun styrkir Listasafn Sigurjóns Ólafssonar fjárhagslega til að vinna að eftirtöldum verkefnum:

  • Sýning á andlitsmyndum Sigurjóns í Danmörku haustið 2008.  Gengið hefur verið frá samningi við hið merka safn Frederiksborg Museet í Danmörku um að þar verði haldin sýning á 30 andlitsmyndum eftir Sigurjón á tímabilinu september - desember 2008.
  • Haldin verður afmælissýning í Listasafni Sigurjóns frá 21. október 2008 sem ráðgert er að standi út veturinn.  Þá er reiknað með að á sama tíma opni sýning á verkum Sigurjóns í Hafnarborg.

 

Fréttasafn Prenta