Frétt

Landsvirkjun kaupir tvær vetnistvinnbifreiðar

13. ágúst 2007

VistOrka (stærsti hluthafi Íslenskrar NýOrku) hefur ákveðið að halda áfram að efla vetnisrannsóknir á Íslandi enda hafa þær gengið vel á undanförnum árum. DaimlerChrysler hefur nú þegar afhent einn vetnisbíl (með efnarafala) til viðskiptavina á Íslandi. Í síðustu viku fékk VistOrka 10 Toyota Prius vetnisbíla afhenta frá fyrirtækinu Quantum. Quantum sérhæfir sig í breytingum á bifeiðum og eru vélar bifreiðanna bæði knúnar bensíni sem og vetni.

VistOrka tók við bílunum við athöfn í höfuðstöðvum Quantum í bænum Irvine, Kaliforníu. Þetta er stærsti áfanginn, hingað til, í verkefninu SMART-H2 (Sustainable Marine and Road Transport,- Hydrogen in Iceland) sem hófst fyrr á þessu ári. Auk Landsvirkjunar eru kaupendur bílanna Orkuveita Reykjavíkur og bílaleigan Hertz. Fyrir á Landsvirkjun DaimlerChrysler vetnisbíl. Með notkun vetnisbíla vill Landsvirkjun minna á að á Íslandi er einstök raforkuframleiðsla sem alfarið er byggð á endurnýjanlegum og mengunarlausum orkugjöfum. Einnig vill Landsvirkjun efla rannsóknir á notkun vetnisknúinna farartækja.

Afhending vetnistvinnbifreiða

Frá afhendingu vetnisbílanna hjá Quantum í Irvine í Bandaríkjunum 7. ágúst.

Markmið SMART-H2 verkefnisins er að fjölga vetnisbílum í um 30 bíla, sumarið 2009. Fjölgun vetnisbíla ásamt því að innleiða vetnistækni um borð í skipum, sem einnig er hluti af SMART-H2 verkefninu, eru mikilvæg skref í átt að vetnisframtíð sem byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum.

 

Fréttasafn Prenta