Frétt

Raforkusamningur milli Becromal og Landsvirkjunar undirritaður

15. ágúst 2007

Í dag var undirritaður raforkusamningur milli fyrirtækisins Becromal á Íslandi og Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðrar aflþynnuverksmiðju á Akureyri, að viðstöddum iðnaðarráherra, fjármálaráðherra, forsvarsmönnum Landsnets og fleiri fyrirtækja og stofnana sem eiga hagsmuna að gæta. Ráðgert er að verksmiðjan verði risin og hefji framleiðslu á næsta ári, en ráðgert er að útflutningsverðmæti hennar verði um 7-9 milljarðar á ári.

Við sama tækifæri var einnig undirritaður samstarfssamningur milli Akureyrarbæjar og Becromal um atriði er snerta lóð verksmiðjunnar og staðsetningu á Akureyri.

Fimmföld raforkunotkun Eyjafjarðarsvæðisins
Raforkusamningurinn tryggir Becromal kaup á 75 MW afli frá Landsvirkjun og fyrirtækið á kost á að auka kaupin í 100 MW síðar. Orkuþörf verksmiðjunnar verður um 640 GWh á ári í upphafi sem er um fimm sinnum meira rafmagn en Eyjafjarðarsvæðið notar árlega og samsvarar nálægt 10% aukingu í eigin raforkuframleiðslu Landsvirkjunar frá síðasta ári.

Ekki reynist nauðsynlegt fyrir Landsvirkjun að virkja vegna þessarar orkusölu að sinni en með vaxandi notkun í landinu flýtir þetta fyrir þörfinni á framkvæmdum á því sviði. Í þessu sambandi verður flutningskerfi Landsnets á Norðurlandi styrkt til frambúðar á næstu árum vegna aukinnar raforkunotkunar þar.

90 ný störf – starfsemi án losunar gróðurhúsalofttegunda
Aflþynnuframleiðsla er sérhæfð hátækni sem losar ekki gróðurhúsalofttegundir en skapar um 90 ný gæðastörf. Hráefnið er valsað og afar hreint hágæðaál sem er rafhúðað í sérhönnuðum vélasamstæðum. Afurðin; aflþynnur eru svo notaðar í rafþétta.

Mikil og vaxandi eftirspurn er eftir rafþéttum nú um stundir enda eru þeir notaðir í allan rafeindabúnað. Vaxandi eftirspurn er eftir minni rafeindabúnaði í t.d. öryggisbúnað bíla, sólarsellur til raforkuvinnslu, flatskjái, tölvur, síma, vindaflsstöðvar o.s.frv. Slíkt kallar á háspenntari þétta með mikinn áreiðanleika og er Becromal leiðandi framleiðandi á aflþynnum í slíka þétta.

Íslenskir fjárfestar taka þátt í uppbyggingunni
Íslenska fjárfestingarfélagið Strokkur Energy ehf., sem fjárfestir einkum á sviði endurnýjanlegra orku, hefur gerst þátttakandi í uppbyggingu Becromal á Íslandi og á 40% hlut í fyrirtækinu á móti móðurfélaginu Becromal sem er ítalskt. Landsbanki Íslands hefur yfirumsjón með fjármögnun verkefnisins.

Nánari upplýsingar
Staðsetning verksmiðjunnar á Akureyri og mikilvægi hennar fyrir byggðarlagið. AFE (Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar) hefur unnið að þessu máli fyrir hönd Akureyrarbæjar undanfarin 3 ár. Forsagan er sú að þessi starfsemi þykir henta afskaplega vel fyrir Akureyri og hafði AFE samband við flest fyrirtæki á þessu sviði í heiminum til að kynna kosti staðsetningar á Akureyri. Becromal sýndi þessu sérstakan áhuga og hefur verið unnið að undirbúningi verksmiðjunnar með þeim síðan. Samkvæmt samningnum sem var undirritaður í dag hefur verksmiðjunni verið valinn staður á iðnaðar- og hafnarsvæðinu Krossanesi, sem stendur í Norðurhluta bæjarins. Þá hefur Akureyrarbær ákveðið að styðja uppbyggingu verksmiðjunnar með þátttöku í þjálfunar- og menntunarferli starfsmanna, en þessi starfsemi er ný hér á landi og mun Verkmenntaskólinn á Akureyri koma að verkefninu en hluti starfsmanna verður sendur erlendis til þjálfunar.

Becromal
Becromal er ítalskt fjölskyldufyrirtæki, stofnað 1955, sem framleiðir aflþynnur í rafþétta.
Becromal er með um 16% markaðshlutdeild í þynnum fyrir rafþétta og starfrækja verksmiðjur á Ítalíu, í Bandaríkjunum og í Noregi.

Framleiðsla á aflþynnum
Rafhúðun aflþynna (foil forming) til notkunar í rafþétta er mjög orkufrekt ferli, einkum fyrir svokallaða háspennuþétta (HV capacitors). Reikna má með 250-300 kWst orkunotkun á hvert kg af áli. Til samanburðar þarf 13 kWst til framleiðslu á 1 kg af hrááli í álverum. Framleiðsla verksmiðjunnar verður af stærðargráðunni 12 milljón fermetrar af aflþynnum á ári.

Markaðir fyrir rafmagnsþétta skiptast í lágspennuþétta og háspennuþétta. Undanfarin ár hefur markaður fyrir rafmagnsþétta vaxið um 5-8% á ári og er talið að áframhald verði á þeim vexti. Meiri orku þarf til að framleiða þynnur fyrir háspennuþétta en lágspennuþétta.

Orkuverð skiptir miklu máli varðandi þessa framleiðslu. Til dæmis má nefna að við framleiðslu á 600 volta þynnu er orka um 42% af framleiðslukostnaði. Þetta hlutfall fer hækkandi við hærri spennu, en eftirspurn hefur aukist mikið eftir þynnum fyrir 500-900 volta þétta.

Fréttasafn Prenta