Frétt

Bætur fyrir vatnsréttindi metnar á 1,6 milljarða króna

22. ágúst 2007

Þetta er mun hærri fjárhæð en Landsvirkjun gerði ráð fyrir og miðaði við eldri fordæmi fyrir virkjanir til stóriðju.

Matsnefndin úrskurðaði að vatnsréttareigendur við Jökulsá á Dal skuli fá 1.223 milljónir króna, vatnsréttareigendur við Jökulsá á Fljótsdal 301 milljón króna og vatnsréttareigendur við Kelduá 111 milljónir króna eða alls ríflega 1.6 milljarða króna.

Þórður Bogason, lögmaður Landsvirkjunar, segir að ráðamenn fyrirtækisins muni nú fara yfir úrskurðinn. Hann vill ekkert segja efnislega um niðurstöðu matsnefndarinnar en bendir á að bæturnar séu vissulega hærri en það sem Landsvirkjun taldi viðeigandi en að sama skapi staðfesting á að kröfur vatnsréttareigenda hafi ekki verið raunhæfar.

Landsvirkjun og vatnsréttarhafar á Fljótsdalshéraði og í Fljótsdal gerðu með sér samning í desember 2005 um að setja niður nefnd sem fjalla myndi og úrskurða um fjárhæð bóta fyrir vatnsréttindi virkjunarinnar og skiptingu fjárins milli einstakra rétthafa. Matsnefndin jafngilti í raun gerðardómi. Niðurstöðurnar eru endanlegar, ef aðilar una þeim, en að öðrum kosti geta þeir farið með mál sín fyrir dómstóla.

Vatnsréttindamálið varðar hátt á annað hundrað einstaklinga sem eiga land að ám sem koma við sögu virkjunarinnar.

Matsnefnd vatnsréttinda var skipuð fimm mönnum. Formaður hennar er skipaður af Héraðsdómi Reykjavíkur, Skúli J. Pálmason, fyrrverandi héraðsdómari. Hann tilnefndi tvo menn með sér til setu í nefndinni, Sigurð Þórðarson, verkfræðing og Sverri Ingólfsson, löggiltan endurskoðanda. Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður var tilnefndur í matsnefnd af hálfu Landsvirkjunar og Egill B. Hreinsson verkfræðingur af hálfu vatnsréttarhafa.

Egill B. Hreinsson skilaði sérákvæði í matsnefndinni í dag og vildi að bæturnar yrðu um það bil sjöfalt hærri en meirihluti nefndarinnar ákvað.

Viðhengi:
Úrskurður meirihluta matsnefndarinnar

Sératkvæði Egils B. Hreinssonar


 

Fréttasafn Prenta