Frétt

220 þátttakendur á nýafstaðinni tækniráðstefnu um Kárahnjúkavirkjun

24. september 2007

"Aðstandendur Kárahnjúkavirkjunar hafa fundið framúrskarandi lausnir á mörgum vandamálum sem þeir hafa staðið frammi fyrir við hönnun mannvirkja og í sjálfum framkvæmdunum". Þetta sagði Bela Petry, prófessor í Brasilíu og straumfræðingur, meðal annars á tækniráðstefnu um Kárahnjúkavirkjun í sem fór fram í síðustu viku. Petry fór á sínum tíma yfir straumfræðilega hönnun aðrennslisganga virkjunarinnar og hönnun yfirfalls og botnrásar Kárahnjúkastíflu. Hann fylgdist líka með líkantilraunum vegna verkefnisins í Sviss og Austurríki þar sem meðal annars var prófað hvernig best væri að hanna yfirfall Kárahnjúkastíflu og hvernig bregðast skyldi við flóknum þrýstisveiflum í aðrennslisgöngunum við fráslátt aflvéla virkjunarinnar. Petry bar sérstaklega lof á tæknilegar lausnir varðandi yfirfall og botnrás Kárahnjúkastíflu og varðandi sveiflujöfnun í aðrennslisgöngunum.  

Alls sóttu 220 manns ráðstefnuna á Grand Hótel, þar af um 50 erlendir gestir. Erlendir þátttakendur sáu ástæðu til að lýsa mikilli ánægju með ráðstefnuhaldið og sögðu óvenjulegt að hægt væri að nálgast svona á einu bretti upplýsingar um nánast alla þætti virkjunarframkvæmdanna. Þá voru hönnuðir og verktakar við virkjunina mjög ánægðir með að fá þetta tækifæri til að kynnast betur verkþáttum hvers annars í þessari flóknu framkvæmd.

Fyrri dag ráðtefnunnar var fjallað um málefni sem tengjast rannsóknum, hönnun og framkvæmdum stíflumannvirkja. Seinni daginn var fjallað um hönnun aðrennslisganga og vatnsvega, hönnun og framkvæmd við stöðvarhúsið í Fljótsdal, tæknibúnað af ýmsu tagi, tengivirki og háspennulínur, umhverfisvöktun, sjálfbærniverkefni Landsvirkjunar og Alcoa á Austurlandi, almannatengsl verkefnisins og fleira.

Richard Graham, tæknilegur framkvæmdastjóri Impregilo, sagði að í sjálfu sér væri hægt að nefna stíflur sem hefðu verið álíka erfiðar eða jafnvel erfiðari við að eiga en Kárahnjúkastífla. Hins vegar væru aðstæður á við Kárahnjúka það sem gerði framkvæmdina á Íslandi alveg sérstaka. Hann nefndi veðurfar, skammdegismyrkur og samgöngur í því sambandi og sagði ítalska verktakann hafa gert ráð fyrir að þarna myndi snjór ekki setja verulegt strik í reikninginn 7-8 mánuði á ári. Reynslan hefði hins vegar kennt að einungis fjórir mánuðir á ári væri snjólausir norðan Vatnajökuls.

Impregilo brást meðal annars við vetrarveðrinu með því að tjalda yfir vinnusvæði og dæla heitu lofti inn í tjöldin til að geta steypt árið um kring, nema í verstu byljum. Og Graham hældi mannskap fyrirtækisins fyrir frammistöðuna við þessar aðstæður. Á svæðinu voru um 1.300 manns á vegum Impregilo, þegar flest var, fulltrúar alls 42 þjóða um víða veröld.

Í máli margra fyrirlesara kom fram hversu vel hefði tekist að leysa flókin tæknileg vandamál sem tengdust framkvæmdunum. Einnig nefndu fyrirlesarar að margar tæknilegar nýjungar hefðu verið notaðar í fyrsta sinn við framkvæmdirnar. Þá hefðu ýmsar tæknilegar lausnir komið fram við framkvæmdirnar sem væru einstakar í sinni röð.

 

Ráðstefna um Kárahnjúkavirkjun - salurinn

Séð yfir ráðstefnusalinn

Ráðstefna um Kárahnjúkavirkjun Loc Home og Birgir Jónsson

Loc Home, forstjóri Robbins og Birgir Jónsson, prófessor, ræðast við

Fréttasafn Prenta