Frétt

Landsvirkjun gerist aðili að fræðslu- og ráðstefnudagskrá MIT

2. október 2007

MIT er einn af framsæknustu háskólum í heiminum og er t.d. í fyrsta sæti yfir bestu háskóla í Bandaríkjunum á sviði tækni og verkfræði og í því þriðja á sviði viðskipta og stjórnunar.

Með aðild Landsvirkjunar að verkefninu býðst fyrirtækinu aðgangur að fræðslu og ráðstefnudagskrá MIT sem ber yfirskriftina MIT Industrial Liaison Program (ILP). Einnig felur aðildin í sér ýmiss konar þjónustu og aðgang að sérfræðingum og þekkingu.

Sérþekking MIT er fyrst og fremst á sviði stjórnunarfræða, efna- og eðlisfræði, tölvutækni, verkfræði, orkurannsókna og fleiri tæknigreina. Samstarfsaðilar fá einnig allar upplýsingar um nýjungar, rannsóknir og þróunarverkefni sem unnið er að og tengjast þörfum íslenskra fyrirtækja.

Samningurinn sem Landsvirkjun hefur gerst aðili að felur í sér aðgang að víðtæku samstarfi, rannsóknum, fyrirlestrum, ráðstefnum, málþingum, rýnihópum og þekkingu og færni MIT eftir þörfum, markmiðum og óskum þeirra fyrirtækja sem taka þátt í samstarfinu. Hægt verður að fá hingað til lands fulltrúa frá MIT til að halda fyrirlestra eða til að vinna sértækt með Landsvirkjun og öðrum fyrirtækjum sem aðild eiga að ILP.

Einnig er hægt að senda fulltrúa til Boston til skrafs og ráðagerða með sérfræðingum fagsviðanna. Slíkar málstofur eru sérsniðnar að þörfum íslensku fulltrúanna í samstarfinu og nýtast t.d. til að styrkja stefnumótun, kynnast því sem er að gerast í rannsóknum og tækni, eða til að skoða nýjar aðferðir við stjórnun fyrirtækja. Þá má nefna að veittur er verulegur afsláttur af ráðstefnugjöldum til þeirra fyrirtækja sem eru aðilar að samningnum.

Nánari upplýsingar:
Vefur ILP verkefnisins >>

 

Fréttasafn Prenta