Frétt

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar stofnaður

12. október 2007

Markmið sjóðsins eru að auka áhuga vísindamanna og háskólasamfélagsins á umhverfis- og orkumálum og hvetja háskólanemendur til starfsframa á því sviði auk þess að gera framlög Landsvirkjunar til grunnrannsókna sýnilegri. Stofnfé sjóðsins er 100 milljónir króna.

Starfsemi sjóðsins má skipta upp í tvo flokka: Annar flokkurinn varðar almennar rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála en úr honum verður úthlutað fé til einstakra rannsóknaverkefna og í námsstyrki til nemenda í framhaldsnámi á háskólastigi. Hinn flokkurinn tengist grunnrannsóknum Landsvirkjunar á sviði virkjana- og veituframkvæmda. Rannsóknir í þessum flokki eru t.d. lífríkis- gróður- og efnarannsóknir, jarðfræði- jarðskjálfta- og háhitarannsóknir, vatna- veður- og jöklarannsóknir, mannvirkjagerð og orkukerfisrannsóknir.

Auglýst verður eftir umsóknum vegna verkefna og námsstyrkja í nóvember og fyrsta úthlutun úr sjóðnum fer fram í byrjun árs 2008.

Stjórn orkurannsóknasjóðs, október 2007

Stjórn orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar á fyrsta fundi sínum. Frá vinstri á myndinni eru
Guðrún Gauksdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík, Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar, Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur, sem jafnframt er formaður sjóðsstjórnar,  Óli Grétar Blöndal Sveinsson, deildarstjóri rannsóknadeildar Landsvirkjunar, Axel Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Sigurður Brynjólfsson, prófessor við Háskóla Íslands.

 

Fréttasafn Prenta