Frétt

Bætur fyrir vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar

17. október 2007

Þann 13. desember 2005 gerði Landsvirkjun samning við eigendur vatnsréttinda í Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá um að sérstök fimm manna matsnefnd fengi það hlutverk að meta umfang og verðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar. Matsnefndin hóf störf snemma árs 2006 og lögðu málsaðilar gögn fyrir hana, auk þess sem umfangsmiklar mælingar á m.a. meðalrennsli vatnsfallanna og falli fyrir landi hverrar jarðar, fóru fram á vegum Vatnamælinga Orkustofnunar og verkfræðistofunnar Vatnaskila, f.h. matsnefndarinnar.

Munnlegur málflutningur var fyrir matsnefndinni í maí 2007. Hinn 22. ágúst 2007 kvað matsnefndin upp úrskurð sinn og voru heildarbætur til vatnsréttarhafa við Jökulsá í Dal ákveðnar rúmir 1,2 milljarðar kr., heildarbætur til vatnsréttarhafa við Jökulsá í Fljótsdal voru ákveðnar umar 300 milljónir kr. og heildarbætur til vatnsréttarhafa við Kelduá voru ákveðnar rúmlega 100 milljónir kr. Alls voru heildarbætur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar því ákveðnar 1.634.395.767 kr.

Í samningi um matsnefndina var gert ráð fyrir því að aðilar gætu skotið úrskurði hennar um bætur vegna vatnsréttinda til dómstóla. Landsvirkjun bauð öllum vatnsréttarhöfum greiðslu í samræmi við niðurstöðu matsnefndar en tilkynnti um leið að yrði málinu skotið til dómstóla áskildi fyrirtækið sér allan rétt til að láta reyna á niðurstöðu matsnefndar fyrir sitt leyti. Alls tilkynntu eigendur 43 jarða við Jökulsá á Dal um málskot og eigendur 3 jarða við Jökulsá í Fljótsdal og við Kelduá. Fara þessir aðilar með um þriðjung þeirra vatnsréttinda sem um var fjallað í matsmálinu. Aðrir vatnsréttarhafar ákváðu að una niðurstöðu matsnefndar, en stór hluti þeirra vatnsréttinda sem þar eru um að ræða er í eigu íslenska ríkisins eða telst vera innan þjóðlendu.

Um málsmeðferð fyrir dómstólum gilda almennar reglur og mun lögfræðistofan Lögmenn Höfðabakka annast rekstur væntanlegra dómsmála f.h. Landsvirkjunar.


 

Fréttasafn Prenta