Frétt

Vatni úr Hálslóni hleypt á aðrennslisgöngin

17. október 2007

Viðstaddir voru fulltrúar frá Landsvirkjun, framkvæmdaeftirlitinu (VIVJ), hönnuðunum (KEJV) og ítalska verktakafyrirtækinu Impregilo.

Það var um hádegisbil í dag sem Jóhann Kröyer, verkefnisstjóri Landsvirkjunar við gangagerðina, ræsti formlega búnaðinn sem lyftir aðallokunum í inntakinu við Hálslón og vatn byrjaði að streyma úr lóninu inn í aðrennslisgöngin. Til öryggis voru samt varalokurnar hafðar niðri til að byrja með en á þeim eru svokallaðir fyllingarstútar og því gat vatnið bunað óhindrað um þá inn í göngin.

Aðrennslisgöngin eru um 40 kílómetra löng og að sögn Sigurðar Arnalds, talsmanns Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar, er reiknað með að fullur þrýstingur verði kominn á þau fyrir mánaðamót. Fljótlega upp úr því getur raforkuframleiðsla hafist. Austurhluti ganganna, frá Þrælahálsi að Valþjófsstaðafjalli, er reyndar þegar fullur af jarðvatni sem safnast hefur þar upp á undanförnum vikum.

Undanfarna daga hefur síðustu aðgöngunum inn í aðrennslisgöngin verið lokað, einum af öðrum, með 18 metra þykkum steinsteyptum „töppum“ og hefur lokaspretturinn gengið afar vel, og hraðar en menn höfðu þorað að vona, þó aðstæður hafi verið erfiðar sökum mikils vatnsaga.

Jóhann Kröyer, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun, ræsir stjórnbúnaðinn sem lyftir lokunum fyrir aðrennslisgöngunum.

Gianni Porta, yfirmaður Impregilo á Íslandi, Agnar Olsen, framkvæmdastjóri verkfræði- og framkvæmdasviðs Landsvirkjunar og Jóhann Kröyer, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun að lokinni opnun aðrennslisganganna.
Fréttasafn Prenta