Frétt

Vatnsréttindi í Þjórsá fela í sér heimild til að mynda nauðsynleg inntakslón

19. október 2007

Af ummælum Atla Gíslasonar, lögmanns og Alþingismanns, í sjónvarpi má ráða að hann dragi í efa að áformaðar virkjanir í Þjórsá séu rennslisvirkjanir og að hann telji að virkjunarlónin séu þar með viðbót við nýtingu fallsins fyrir jörðinni.  Það er misskilningur hans. Nýju virkjanirnar í Þjórsá verða rennslisvirkjanir og lónin þeim tengd nauðsynleg inntakslón án allrar miðlunargetu.

Það er því alrangt hjá Atla að ef af framkvæmdum verði þýði það að greiða beri landeigendum sérstaklega fyrir virkjunarlón þar sem það hafi strítt gegn þágildandi lögum að veita slíka heimild í byrjun síðustu aldar þegar meginþorri vatnsréttinda við neðri hluta Þjórsár var keyptur af landeigendum. Landeigendur höfðu á þeim tíma fulla heimild til að selja vatnsréttindi til orkunotkunar frá jörðum sínum og varð engin breyting á því með tilkomu vatnalaganna 1923. Samningar um kaup á vatnsréttindunum frá þeim tíma bera þess einnig merki: í þeim heimila landeigendur nauðsynleg mannvirki á landareignum sínum og þar með að ánni sé veitt að meira eða minna leyti úr farvegi sínum við nýtingu vatnsréttindanna.

Misskilningur Atla á þessu máli virðist eiga rætur í því að hann kýs að taka einstakan lagastað og leiða út almenna reglu af honum einum án nokkurs samanburðar og samhengis við önnur lagafyrirmæli.

Með gildistöku vatnalaga árið 1923 var steypt í einn lagabálk dreifðum fyrirmælum í lögum landsins er vörðuðu flest það sem tengdist vatni. Greinin í vatnalögunum sem Atli vísar til á m.a. rót sína að rekja til laga nr. 65/1913, um vatnsveitingar, þar sem sagði í 1. gr. “Öll vötn stór og smá, skulu svo renna sem að fornu hafa runnið, og má ekki breyta farvegi þeirra, nema með samþykki allra þeirra, sem breytingin snertir hagsmunalega, eða heimild sje gefin til þess í lögum þessum.”  Í athugasemdum með samsvarandi grein vatnalaga (7. gr.) er vísað til þessa og þar segir jafnframt “Annars verður auðvitað að skýra þessi fyrirmæli öll í sambandi við fyrirmæli III.-IX. kafla og XII.–XIII. kafla.”  Fyrirmælin í köflum þessum hafa m.a eftirfarandi að geyma:  “um leyfi til að virkja fallvatn fer samkvæmt raforkulögum”.

Landsvirkjun mun óska eftir virkjunarleyfi ráðherra áður en til framkvæmda kemur eins og áskilið er í 4. gr.raforkulaga, nr. 65/2003.

Nánari upplýsingar um undirbúning fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá má fá á vefnum www.thjorsa.is/

Fréttasafn Prenta