Frétt

Samningar við landeigendur vegna nýrra virkjana í neðri hluta Þjórsár

31. október 2007

Í fjölmiðlum að undanförnu hefur það komið fram í umræðum um áform um nýjar virkjanir í neðri hluta Þjórsár að Landsvirkjun sé líkleg til að þvinga landeigendur til samninga með hótunum um eignarnám. Slíkar fullyrðingar eru tilhæfulausar. Ekki verður annað séð en að niðurstaða fáist í öllum málum sem varða landnot og vatnsréttindi í neðri hluta Þjórsár án þess að eignarnámsheimildir komi þar við sögu.

Vatnsréttindin voru seld í frjálsum samningum
Titanfélagið keypti vatnsorku- og landsréttindi af eigendum jarða við Þjórsá á árunum 1914-1918. Íslenska ríkið eignaðist þessi réttindi með samningi við Titan árið 1951. Ríkið framseldi réttindin vorið 2007 til Landsvirkjunar sem þarf að greiða fullt verð fyrir þau þegar til nýtingar kemur. Um er að ræða 95% vatnsréttinda vegna Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjunar.

Auk vatnsréttinda fylgir þessum samningum Titans við landeigendur réttur til að nýta land jarðanna eins og nauðsynlegt reynist við notkun vatnsaflsins, en þá gegn greiðslu bóta. Samningarnir kveða almennt á um að samið skuli um bæturnar. Jafnframt er mælt fyrir um hvaða leið skuli farin ef samningar um bætur náist ekki. Í flestum tilfellum segir að þá skuli dómkveðja matsmenn til að meta þá skerðingu sem landeigendur verða fyrir.

Samkomulag á grundvelli samninga
Augljóslega þarf Landsvirkjun að leita samninga við landeigendur um bætur vegna áhrifa virkjananna á land þeirra. Þess vegna hefur Landsvirkjun lagt mikla áherslu á að koma til móts við landeigendur í hönnun og útfærslu mótvægisaðgerða sem draga verulega úr áhrifum virkjana. Náist ekki samningar við landeigendur er líklegt að Landsvirkjun óski eftir dómkvaðningu matsmanna sem þá meta hæfilegar bætur vegna áhrifa framkvæmdanna á landið, enda er það í samræmi við ákvæði þeirra samninga sem liggja fyrir. Í þeim tilfellum þar sem vatnsréttindin eru í höndum Landsvirkjunar getur því ekki komið upp sú staða að leita þurfi eftir eignarnámi.

Einungis 5% vatnsréttindanna í einkaeign
Í örfáum tilfellum liggja ekki fyrir samningar um framsal vatnsréttinda og nýtingu landsréttinda heldur eiga landeigendur vatnsréttindin sem um ræðir í Þjórsá fyrir landi sínu. Í þeim tilfellum á Landsvirkjun í viðræðum við landeigendurna um greiðslu fyrir vatnsréttindi og þau áhrif sem nýting þeirra hefur á viðkomandi jörð. Enginn vatnsréttareigandi hefur hafnað því alfarið að semja við Landsvirkjun um framsal réttinda sinna og greiðslu fyrir þau. Í því ljósi er ekki tilefni til að ætla að til eignarnáms komi.

Lög heimila eignarnám
Hinu er ekki að leyna að skýr eignarnámsheimild liggur fyrir og deildar meiningar eru um ágæti hennar eins og fram kemur í samfélagsumræðunni. Ef til stæði að óska eftir eignarnámi kæmu til skoðunar ákvæði vatnalaga nr. 15/1923 og raforkulaga nr. 65/2003. Í 23. gr. raforkulaga segir að heimilt sé að taka eignarnámi nauðsynlegt land, landgæði, mannvirki, aðstöðu og önnur réttindi landeiganda að því leyti sem nauðsyn ber til, hafi fyrirtæki ekki náð samkomulagi við landeiganda eða eiganda orkulinda vegna framkvæmda á grundvelli raforkulaga.

Eðlilegt að eigendur meirihluta ráði heildinni
Ekki má líta framhjá því að í þessu tilfelli er einungis um að ræða 5% þeirra vatnsréttinda sem tengd eru áformum um nýjar virkjanir í Þjórsá. Má hér m.a. benda á 53. gr. vatnalaga nr. 15/1923 þar sem segir að eigi menn í félagi tilkall til orku úr sama fallvatni, og verði þeir ekki ásáttir, hvernig það skuli notað til orkuvinnslu, geti þá ráðherra heimilað, að þeir, sem tilkall eigi til meira en helmings vatnsorkunnar, talinnar eftir vatnsmagni og fallhæð, leysi til sín tilkall minni hlutans.

Með þessu ákvæði er komið í veg fyrir það að þeir sem eiga lítinn hluta vatnsréttinda geti staðið í vegi fyrir því að sá sem á meirihluta vatnsorku í vatnsfalli geti nýtt hana. Það þarf ekki annað en að hugsa til veiðifélaga eða húsfélaga til að átta sig á að ákvæði af þessu tagi eru hinn eðlilegasti hlutur á mörgum sviðum mannlífsins.

Nánar er fjallað um fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár á vefnum www.thjorsa.is.

Fréttasafn Prenta