Frétt

Landsvirkjun, Þeistareykir og Jarðboranir semja um rannsóknarboranir á Norðausturlandi 2008

14. nóvember 2007

Borað verður fyrir Landsvirkjun á Kröflusvæðinu, í Bjarnarflagi og í Gjástykki.  Fyrir Þeistareyki ehf. verður boruð rannsóknarhola á jarðhitasvæðinu við Þeistareyki.  Gert er ráð fyrir að holurnar verði allar stefnuboraðar, hver um sig um 2.300 m að dýpt.

 Jarðboranir og Landsvirkjun undirrita samning 

Frá undirritun samningsins.  Fremst á myndinni eru, talið frá vinstri: Bent S. Einarsson forstjóri Jarðborana og Örn Marinósson staðgengill forstjóra Landsvirkjunar. Í aftari röð frá vinstri: Garðar Sigurjónsson verkefnastjóri hjá Jarðborunum, Ari Stefánsson framkvæmdastjóri Jarðborana, Árni Gunnarsson verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun og Björn Stefánsson deildarstjóri virkjanadeildar hjá Landsvirkjun.

Framkvæmdir þessar eru leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Að sögn Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana hf, treystir þessi samningur enn frekar verkefnastöðu fyrirtækisins á næsta ári. “Við höfum átt gott samstarf við báða þessa viðskiptavini og vonumst til að sem bestur árangur náist með þessum nýjum rannsóknarborunum sem miða að enn frekari nýtingu umhverfisvænnar orku á þessum slóðum.”

Að sögn Arnar Marinóssonar, staðgengils forstjóra Landsvirkjunar, og Franz Árnasonar, stjórnarformanns Þeistareykja ehf, er verkefnið áfangi á leið Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf til enn frekari öflunar vistvænnar og verðmætrar orku með virkjun jarðvarma.

Boranirnar eru liður í könnun á stærð þessara jarðhitasvæða og miða að orkuöflun fyrir mögulega stóriðju við Húsavík. Stefnt er að því að geta hafið sölu á rafmagni frá háhitasvæðunum á Norðausturlandi á árabilinu 2012-2015, ef um semst. Orkufyrirtækin stefna að því að ljúka rannsóknum á fyrrgreindum jarðhitasvæðum á árinu 2008 í samræmi við viljayfirlýsingu sem í gildi er við Alcoa.


 

Fréttasafn Prenta