Frétt

Viðamikil þátttaka Íslendinga á Heimsþingi Alþjóðaorkuráðsins

20. nóvember 2007

Kjörorð þingsins að þessu sinni var „Framtíð orkumála í samofnum heimi“ (The Energy Future in an Interdependent World). Um fjögur þúsund manns sóttu þingið.

Alþjóðaorkuráðið er meðal elstu alþjóðasamtaka í heimi. Þau héldu fyrsta heimsþing sitt árið 1924 en frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa slík þing verið haldin á þriggja ára fresti. Íslendingar eiga aðild að samtökunum síðan 1950 og hafa sótt þingin allt frá þeim tíma.

Að þessu sinni var hlutdeild stjórnenda bæði stórfyrirtækja og þjóðríkja mjög áberandi enda var staða og stefna í orkumálum aðalumræðuefni þingsins. Meðal þeirra sem ávörpuðu þingið voru forsætisráðherra Ítalíu, Romano Prodi og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, en líka forstjórar stórfyrirtækjanna General Electric og Gazprom svo dæmi séu tekin.

Skýrt kom fram að viðfangsefnin á sviði orkumála heimsins eru viðamikil:

 • Mikil aukning orkuþarfar. Talið er að eftirspurn eftir orku muni aukast um 50-60% fram til 2030, ekki síst vegna síaukinnar þarfar hinna vaxandi efnahagsvelda, Kína og Indlands. Jafnframt var bent á að enn hefur nær þriðjungur mannkyns ekki aðgengi að öðrum orkugjöfum en heimafengnu brenni.
 • Fjárfestingarþörf er feikileg. Talið er að fjárfesta þurfi í orkuverkefnum í heiminum fyrir um 50.000 milljarða króna árlega næstu áratugina. Svo dæmi sé tekið þarf að bæta við einu raforkuveri á stærð við Kárahnjúkavirkjun á þriggja daga fresti í Kínaríki einu.
 • Loftslagsmálin krefjast aðgerða enda er orkuvinnsla og orkunotkun langstærsti valdur að losun gróðurhúsalofttegunda. Heimsþingið var að þessu sinni frábrugðið þeim sem á undan hafa verið haldin að því leyti að loftslagsmálin voru nú mjög í brennidepli.

Samhljómur var mikill um að markvissra aðgerða sé þörf:

 • Stjórnvöld og stórfyrirtæki þurfa að taka saman höndum. Fjárfestingarþörfin verður ekki leyst án þess að virkja einkafjármagnið í enn ríkari mæli en hingað til. Í því skyni þurfa stjórnvöld að skapa lagaumhverfi sem treysta má og sem er til langframa. Jafnframt er það hlutverk stjórnvalda að efla rannsóknar- og þróunarstarf en fjármagn í þessu skyni hefur farið minnkandi nær hvarvetna frá því að vera í hámarki í kjölfar olíukreppunnar á níunda áratugnum.
 • Jafnframt þarf að nýta alþjóðavæðinguna, virkja þarf hið hnattvædda fjármagn en einnig að efla samstarf stjórnvalda landa í milli, ekki síst í rannsóknum. Þróunin hefur að hluta til stefnt í öndverða átt, þar hefur gætt vaxandi þjóðernishyggju í orkumálum og hafa mörg ríki í auknum mæli hyglt innlendum fyrirtækjum umfram hin alþjóðlegu. Talið var að þarna sé verið að rugla tvennu saman; því eðlilega markmiði að heimamenn njóti arðs af auðlindum sínum og því afli sem þarf til framkvæmda svo að arðurinn skili sér.
 • Leita verður allra leiða til að hemja losun gróðurhúsalofttegunda. Á þinginu ríkti mismikil bjartsýni um árangur í þeim efnum en ræðumenn voru nær allir sammála um að nauðsyn ber til róttækra aðgerða enda væru veðurfarsbreytingar að verulegu leyti af manna völdum.
 • Mjög var rætt um nauðsyn þess losunin verði með einhverjum hætti verðlögð; það sé besta leiðin til þess að virkja einkaframtakið til úrlausna með kolefnamarkaði. Meðal annarra reifaði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hugmyndir sínar um heimskvóta fyrir greinar eins og ál, stál, sement og flug sem væru framseljanlegir og hugsanlega stýrt af alþjóðastofnunum þannig að þróunarlönd nytu góðs af.
 • Orkusparnaður og hagkvæmari nýting orku eru grundvallaratriði til að ná í senn fram árangri í loftslagsmálum og til að jafnvægi megi skapast á orkumarkaði. Með bestu tækni má auka orkunýtni kolakyntra raforkuvera umtalsvert en þau eru lunginn af orkuverum heims. Í samgöngum eru nú mestar vonir bundnar við lífrænt eldsneyti en ekki síður beina notkun rafmagns vegna framfara í rafgeymagerð, en flóknari leiðir eins og vetni bíði a.m.k. um sinn.
 • Lögð verði rík áhersla á endurnýjanlega orkugjafa. Leita verði allra leiða til að stórauka nýtingu þeirra enda þótt dýrari kunni að vera í fyrstu. Verðlagning mengunar og hækkandi verð á jarðefnaeldsneyti mun þó gera þessa orkugjafa hlutfallslega hagkvæmari.
 • Ekki má útiloka neina orkugjafa til öflunar á nauðsynlegri orku, hvorki kjarnorku né stórar vatnsaflsvirkjanir svo tekin séu tvö dæmi um orkugjafa sem hafa átt undir högg að sækja. Þvert á móti þurfi að auka hlut þessara tveggja þátta.
 • Þrátt fyrir allt verður jarðefnaeldsneyti samt aðalorkugjafi mannkyns um fyrirsjáanlega framtíð að flestra mati. Því verði að keppa að því að fanga koltvísýring sem þannig losnar og farga honum með einhverjum hætti, en ýmis tækni er þegar til í því skyni. Hér þarf stórátak í rannsóknum og síðan framkvæmdum.

Þátttaka Íslendinga í heimsþinginu

Þátttaka Íslendinga var að þessu sinni með veglegri hætti en oft áður. Í fyrsta sinn um langa hríð var íslenskur kynningarbás í sýningarskálum ráðstefnunnar þar sem útrás Íslendinga í orkumálum var gerð sérstök skil. Fjölmennur hópur íslenskra forvígismanna í orkumálum sótti þingið eins og einatt áður. Íslenskir ræðumenn voru óvenjumargir:

 • Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tók þátt í pallborðsumræðu um orku- og loftslagsmál og er ekki vitað til að íslenskur ráðherra hafi áður tekið virkan þátt í þinghaldi Alþjóðaorkuráðsins.
 • Guðmundur Ómar Friðleifsson flutti fyrirlestur um djúpborun eftir jarðhita, en hann er forvígismaður að slíku verkefni á Íslandi.
 • Marta Rós Karlsdóttir, meistaranemi í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, tók þátt í sérstöku ungliðastarfi þingsins og flutti erindi um vetnismál á sérstöku málþingi sem Rússar efndu til.
 • Á þinginu var auk þess vakin athygli á rússneskum orkuverðlaunum sem Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor hlaut fyrr á árinu en hann þakkaði fyrir með ávarpi.
 • Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður á loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Bonn, var ræðumaður í sérumræðu um aðgerðir í loftslagsmálum að loknu Kýótó-tímabilinu.
 • Ingvar Birgir Friðleifsson, forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna vakti athygli á því í lokaumræðu þingsins að hörgull væri á vel menntuðu fólki í orkugeiranum, ekki hvað síst í þróunarlöndunum. Lagði hann til að Alþjóðaorkuráðið beitti sér í þessum efnum.

Í tengslum við heimsþing Alþjóðaorkuráðsins er jafnan gefin út bók um helstu orkulindir heims, og bar hún að þessu sinni yfirskriftina WEC Survey of Energy Resources 2007. Þar er einn yfirlitskafli með nýjustu tölum um hverja orkulind (kol, olíu, gas, lífmassa, vatnsafl, jarðhita, vind, sólarorku o.s.frv.). Jarðhitakaflann skrifuðu að þessu sinni, að ósk WEC, þeir Ingvar Birgir Friðleifsson (Jarðhitaskólanum) og Árni Ragnarsson (Alþjóðajarðhitasambandinu IGA og Ísor).

(Fréttatilkynning Íslandsnefndar Alþjóðaorkuráðsins)

Fréttasafn Prenta