Frétt

Landsvirkjun hlaut Íslensku gæðaverðlaunin

16. nóvember 2007

Þetta er mikil viðurkenning fyrir starfsmenn því verðlaunin eru ein þau eftirsóttustu sem veitt eru fyrirtæki eða stofnun á Íslandi.

Markmið með Íslensku gæðaverðlaununum er ætlað að veita fyrirtækjum og stofnunum viðurkenningu fyrir raunverulegan stjórnunarárangur og jafnframt hvetja fyrirtæki til að setja sér skýr markmið og leggja mat á árangurinn reglulega. Fjórir aðilar standa að Íslensku gæðaverðlaununum: Stjórnvísi, Forsætisráðuneytið, Háskóli Íslands og VR og voru þau veitt í níunda sinn.

Landsvirkjun tekur við gæðaverðlaununum 2007
Kristján L. Möller, samgönguráðherra afhendir Erni Marinóssyni, staðgengli forstjóra og
Guðmundi S. Péturssyni, gæðastjóra Landsvirkjunar, Íslensku gæðaverðlaunin.

Greinargerð matsnefndar
Umsókn Landsvirkjunar er einstaklega vel sett fram og góð fyrirmynd fyrir hvernig á að vinna slíka umsókn. Stjórnendur og starfsmenn sem matsnefndin hitti við heimsóknina sýndu mikinn áhuga og metnað í sínu starfi. Umræðan var jákvæð og gáfu stjórnendur fyrirtækisins raunsanna mynd af starfseminni og þeim þáttum sem lágu til grundvallar við matið. Ekki gafst kostur á að hitta forstjóra þar sem hann var erlendis en matsnefnd hitti staðgengil hans.

Umsögn matsnefndar um fyrirtækið
Matsnefndin heimótti öflugt og metnaðarfullt þekkingarfyrirtæki sem gefur sambærilegum fyrirtækjum erlendis ekkert eftir. Frumkvæði og metnaður starfsmanna fær notið sín í vel skilgreindu starfsumhverfi með virka, öfluga og stefnumiðaða mannauðsstjórnun þar sem vel er hlúð að starfsfólki. Staða mannauðsstjórnunar í skipuriti fyrirtækisins sýnir áherslur þess í starfsmannamálum. Mannauðurinn er virkjaður til hins ítrasta með umboð til athafna að leiðarljósi.

Upplýsingakerfi eru notuð á skilvirkan og hagnýtan hátt sem styður vel við markmið og verklag og eru góð fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki í notkun upplýsinga.

Leiðtogar og stjórnendur fyrirtækisins hafa skýra framtíðarsýn sem er unnin á mjög kerfisbundin og skilvirkan hátt með virkri þátttöku starfsmanna. Stefnumörkun fyrirtækisins er kynnt og innleidd á öllum starfssviðum fyrirtækisins þar sem þarfir viðskiptavina og samfélagsins eru hafðar að leiðarljósi. Fyrirtækinu er umhugað um ímynd sína og tekur mjög virkan þátt í samfélagslegum verkefnum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Sjálfsmatsskýrsla Landsvirkjunar
Að skýrslunni unnu eftirtaldir: Eggert Guðjónsson, Edward J. Westlund, Guðmundur S. Pétursson, Gunnhildur Manfreðsdóttir, Hanna Marinósdóttir, Ragnhildur Vigfúsdóttir, Unnur María Þorvaldsdóttir og Þorsteinn Hilmarsson. Auk þess lögðu eftirtaldir hönd á plóginn Einar Mathiesen, Gunnar Örn Gunnarsson og Rán Jónsdóttir.

Skýrslan er byggð upp á EFQM árangurslíkaninu

Viðhengi:
Sjálfsmatsskýrsla Landsvirkjunar (3,5 Mb)


Starfsmen Landsvirkjunar með íslensu gæðaverðlaunin 2007

Nefnd Landsvirkjunar við afhendinguna í gær.

 

Fréttasafn Prenta