Frétt

Landsvirkjun gefur út skuldabréf í Bandaríkjadölum

30. nóvember 2007

Lánstíminn er 7 ár og eru kjör skuldabréfsins Libor + 0,07%. Umsjón með útgáfunni hefur belgíski bankinn DEXIA. Með þessari útgáfu er fjármögnun ársins 2007 lokið.

Aðstæður á lánamörkuðum voru Landsvirkjun hagstæðar á fyrri hluta ársins sem skilaði sér í hagstæðum lánum bæði hvað varðar kjör og lánstíma. Náði fyrirtækið að ljúka stærstum hluta lánsfjárþarfar sinnar vegna ársins í maí sl. Munaði þar mestu um mikið framboð fjármagns á mörkuðum og góða lánshæfiseinkunn fyrirtækisins.

Frá því í ágúst sl. þegar áhrifa af bandarísku húsnæðislánakrísunni fór að gæta hafa aðstæður á lánamörkuðum verið óhagstæðar. Fjármálafyrirtæki hafa þurft að afskrifa töluverðar fjárhæðir og erfiðleikar í bandaríska hagkerfinu hafa teygt anga sína yfir á aðra markaði. Í kjölfarið hefur mikil áhættufælni ríkt á mörkuðum og margir hafa haldið að sér höndum. Til að gera ástandið enn erfiðara á lánamörkuðum fyrir íslensk fyrirtæki tilkynnti erlenda lánshæfisfyrirtækið Standard & Poor´s í sl. viku að horfur íslenska ríkisins hefðu verið færðar úr stöðugum niður í neikvæðar. Breytingar sem þessar hafa bein áhrif á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar til hins verra. Þrátt fyrir þessi óhagstæðu ytri skilyrði tókst Landsvirkjun að gefa út skuldabréf á mjög hagstæðum kjörum á sama tíma og tryggingarálag á íslenska ríkið var um Libor + 0,4%.

Fyrir utan hefðbundna fjármögnun hefur Landsvirkjun aðgang að veltiláni að upphæð 400 milljón Bandaríkjadala sem tekið var í árslok 2005 og er ætlað að styðja enn frekar við lausafjárstöðu fyrirtækisins. Heildarfjárþörf fyrirtækisins fyrir árið 2008 er um 600 milljónir Bandaríkjadala og fer því Landsvirkjun inn í næsta ár fjárhagslega sterkt og með töluvert lausafé til ráðstöfunar.

Fréttasafn Prenta