Frétt

Ærandi hávaði frá holu 36 í Kröflu

13. desember 2007

Að sögn sérfræðinga hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) kom holan kröftuglega upp með tiltölulega hreinni gufu. Ekkert vatn fylgdi gufunni og hélst það þannig allan tímann. Eftir 5-10 mínútur fór gufan að dökkna og um tíma var mökkurinn nánast svartur eins og sjá má í eldgosum. Sunnan strekkingur var meðan á upphleypingu stóð og litaðist snjórinn svartur undir mekkinum sem teygðist einhverja hundruð metra. Áfallið var örþunnt en þétt, varla þykkara en 1-2 mm. Um klukkustund síðar var strókurinn upp úr hljóðdeyfinum orðinn nokkuð hreinn. Að öllum líkindum hefur brennisteinsvetni valdið þessum litabreytingum.

Ekki fengust öruggar afltölur þar sem mælitæki brotnaði í látunum, en samkvæmt sérfræðingum ÍSOR er líklegt að aflið hafi verið á bilinu 20-30 MW eftir upphleypingu.
 
Holan er á borplani KJ-34 og var stefnuboruð til norðvesturs. Botn holunnar er í um 1 km fjarlægð frá holutoppi í láréttri fjarlægð. Síðasti verkdagur borsins Jötuns á holunni var 19. nóvember en þá var henni lokað.
 
Á myndinni hér að neðan er Kristján Stefánsson, en þeir Karl Emil Sveinsson, starfsmenn í Kröflu, sáu um upphleypingu holunnar. Á neðri myndinni sést hve þéttur gufustrókurinn frá hljóðdeyfinum var.

 

Blástur úr holu 36 í Kröflu - Starfsmaður í forgrunni

 

Blástur úr holu 36 í Kröflu


Fréttasafn Prenta