Frétt

Landsvirkjun Power ehf.

18. desember 2007

Tilgangur félagsins er sala á ráðgjöf til þriðja aðila og að annast sjálft eða hafa umsjón með almennum rannsóknum, virkjunarundirbúningi og framkvæmdum fyrir Landsvirkjun og eftir því sem við á dóttur- og hlutdeildarfélög LP og Landsvirkjun. Fyrirtækinu er ætlað að taka þátt í hvers konar fjárfestingu á sviði orkumála, þar með talið í fjárfestingum í virkjunum og raforkukerfum beint eða óbeint.

Stjórn og forstjóri LP
Stjórn LP skipa Friðrik Sophusson stjórnarformaður, Örn Marinósson og Einar Kristjánsson.
Þá hefur Bjarni Bjarnason, sem verið hefur framkvæmdastjóri orkusviðs Landsvirkjunar undanfarin ár, verið ráðinn framkvæmdastjóri frá 1. janúar 2008.

Verkfræði- og framkvæmdasvið Landsvirkjunar flyst til LP
Frá áramótum verður verkfræði- og framkvæmdasvið LV lagt niður og þeir tæplega 40 starfsmenn sem þar starfa flytjast flestir til nýja fyrirtækisins ásamt þeim verkefnum sem þeir hafa með höndum. Þannig mun LP annast um lúkningu Kárahnjúkavirkjunar fyrir Landsvirkjun og halda utan um undirbúning virkjana í neðri hluta Þjórsár og jarðhitavirkjana á Norðausturlandi.

LP vinnur fyrir Landsvirkjunar að virkjunum
Að gefnu tilefni er rétt að taka skýrt fram að nýjar virkjanir sem byggðar verða, t.d. í Þjórsá, verða í eigu og á ábyrgð Landsvirkjunar. Umsjón og utanumhald LP við rannsóknir, hönnun og bygginu slíkra mannvirkja verður unnið sem verk fyrir Landsvirkjun gegn greiðslu skv. samningum.

Hlutafé LP allt að 8 milljarðar kr.
Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt að leggja allt að 8 milljarða kr. í LP sem hlutafé. Þar sem um hlutafélag er að ræða takmarkar Landsvirkjun þannig áhættu sína með stofnun LP við þá upphæð. Fjárfestingar fyrirtækisins verða síðan fjármagnaðar með lánum sem LP er ábyrgt fyrir en ekki Landsvirkjun. Þar með verður engin ríkisábyrgð á slíkum lánum.

Dóttur- og hlutdeildarfélög LP
Með tilkomu LP flytjast nokkur dóttur- og hlutdeildarfélög Landsvirkjunar til LP. Það er dótturfélagið Íslensk jarðhitatækni og hlutdeildarfélögin Hecla SAS í Frakklandi og Sipenco í Sviss. Öll þessi fyrirtæki hafa það hlutverk að vinna að verkefnum á orkusviði.

Þá er ótalið HydroKraft Invest sem er helmingafélag LP og Landsbankans vatnsafls ehf. Allt að 5 milljarðar þeirra 8 milljarða króna sem lagðir eru til LP eru ætlaðir sem hlutafé í HydroKraft. Það fyrirtæki er fjárfestingarfélag sem leitar verkefna á orkusviði, einkum í Austur-Evrópu í upphafi.

Fréttasafn Prenta