Frétt

Raforkuframleiðsla í Sultartangastöð liggur niðri

14. janúar 2008

Fyrri spennirinn bilaði þann 1. nóvember sl. og sá seinni á aðfangadag. Vegna mikillar eftirspurnar og álags hjá framleiðendum varahluta tekur langan tíma að fá framleiddar tvær nýjar háspennuspólur sem þarf til að lagfæra spennana. Fyrirliggjandi viðgerðaráætlun gerir ráð fyrir að annar spennirinn komist í rekstur í lok febrúar og hinn í lok apríl næstkomandi.

Af þessum sökum er Sultartangastöð úr rekstri og aflgeta í virkjunum Landsvirkjunar á Suðurlandi því talsvert minni en gert er ráð fyrir í eðlilegum rekstri. Vegna flutningstakmarkana  í flutningskerfi Landsnets er ekki hægt að nýta aflgetu Fljótsdalsstöðvar að fullu. Landsnet og Landsvirkjun hafa því þurft að grípa til takmarkana á afhendingu á ótryggðu rafmagni til almenningsveitna og afgangsorku til stóriðju á Suður- og Vesturlandi, á háálagstímum. Ekki er þó um miklar skerðingar að ræða og munu almennir notendur ekki verða varir við þær. Þetta ástand mun vara að minnsta kosti þar til fyrri vélin í Sultartanga kemur í rekstur í lok febrúar. Viðskiptavinir á Norður- og Austurlandi ættu hins vegar að halda fullri afhendingu rafmagns.

Verið er að kanna ástæður þessara bilana en þær eiga sér líklega rætur í hönnunarforsendum eða í tengingum spennanna við háspennulínur kringum aflstöðina.

 

Fréttasafn Prenta