Frétt

Endurskoðað arðsemismat vegna Kárahnjúkavirkjunar

21. janúar 2008

Fyrri endurskoðun á arðsemismatinu sem fram fór árið 2006 leiddi í ljós að heldur hafði dregið úr arðsemi verkefnisins þótt það stæðist áfram arðsemiskröfur eigenda Landsvirkjunar. Ný endurskoðun núna leiðir í ljós að arðsemin er meiri en fyrri athuganir hafa sýnt. Meginskýringin er sú að tekjur reiknast hærri en gert var ráð fyrir og vegur þar þyngst hærra álverð.

Helstu niðurstöður arðsemismatsins

  • Vænt arðsemi eiginfjár reiknast nú 13,4%, en upphaflegt mat gerði ráð fyrir 11,9% arðsemi.
  • Jákvætt núvirði framkvæmdarinnar umfram arðsemiskröfur eigenda er samkvæmt matinu 15,5 milljarðar króna, þetta er 8,9 milljarða hækkun frá upphaflegri áætlun.
  • Árlegur hagnaður fyrir skatta af Kárahnjúkavirkjun er áætlaður að meðaltali 4.220 m.kr. á verðlagi ársins 2008.

Matið byggist á núvirtu fjárstreymi
Við arðsemismatið er notuð sama aðferðafræði og áður þar sem lagt er mat á núvirt fjárstreymi frá verkefninu. Stuðst er við nýrri og nákvæmari upplýsingar um forsendur matsins. Ráðgjafarfyrirtækið Capacent var fengið til að rýna arðsemisútreikningana og leggja mat á áreiðanleika þeirra.

Álit Capacent á arðsemismatinu
Capacent telur uppfært arðsemismat Landsvirkjunar á fjárfestingu í Kárahnjúkavirkjun almennt vel grundað og að samræmis hafi verið gætt við upphaflegt arðsemismat. Matið sé unnið samkvæmt viðurkenndri aðferð. Capacent telur forsendur matsins „óþarflega varfærnar“ í nokkrum tilvikum. Capacent telur matið gefa raunsæja mynd a væntri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.

Forsendur arðsemismatsins
Arðsemismatið byggist á forsendum um stofnkostnað, raforkusölu, álverð og þróun þess, gengi Bandaríkjadals, rekstrarkostnað og líftíma virkjunarinnar sem og fjármagnskostnað. Helstu breytingar á forsendum frá upphaflega arðsemismatinu eru eftirfarandi:

Stuðst er við áfallinn kostnað vegna virkjunar og flutningsvirkja ásamt fjármagnskostnaði á byggingartíma fram til 30. september 2007 ásamt áætlun um kostnað við að ljúka framkvæmdum.

Kostnaður við Kárahnjúkavirkjun eina og sér er áætlaður 133.307 m.kr. og er það um 7% hærra en upphafleg kostnaðaráætlun framreiknuð til verðlags í lok september 2007. Meginástæður þess að Kárahnjúkavirkjun hefur reynst dýrari en kostnaðaráætlunin gerir ráð fyrir felst í auknum kostnaði við jarðgangagerð og tafir af þeim sökum.

Þegar álverð hefur hækkað í gegnum tíðina hefur dollar veikst gagnvart helstu myntum. Forsendur endurskoðaðs arðsemismats um álverð og gengi endurspeglar þetta samband þar sem lágt gengi dollars og hærra álverð fara saman. Í arðsemismatinu er notað framvirkt verð á áli á virkum markaði til næstu fimm ára og eftir það er gert ráð fyrir 0,45% árlegri raunlækkun á álverði á líftíma virkjunarinnar eins og gert var í upphaflega matinu. Gert er ráð fyrir því að jafnvægisgengi Bandaríkjadals gagnvart krónu verði 69 kr/USD í stað 87,5 kr. áður.

Ólíkt því sem gert var í upphaflega arðsemismatinu er fjármagnskostnaður nú reiknaður með vaxtaálagi sem hlytist af því að Landsvirkjun nyti ekki ríkisábyrgðar.

Fylgiskjöl:

Mat á arðsemi Kárahnjúkaverkefnisins 
Minnisblað frá Capacent  

Fréttasafn Prenta