Frétt

Landsvirkjun tekur yfir samninga við Arnarfell

24. janúar 2008

Arnarfell ehf. vinnur við Kárahnjúkavirkjun austan Snæfells vegna veitu Jökulsár í Fljótsdal og minni vatnafalla þar austur af á svonefndum Hraunum samkvæmt fjórum verksamningum.  Samningsupphæð er samtals um 6 milljarðar króna án VSK og u.þ.b. tveimur þriðju hluta verksins er þegar lokið.

Arnarfell lauk mikilvægum áföngum við að beisla Jökulsá í Fljótsdal á árinu 2007, þannig að verkið er nokkurn veginn á áætlun. Jökulsárveitu þarf að ljúka næsta sumar og Hraunaveitu sumarið 2009.

Viðræður hafa staðið undanfarnar vikur um fjárhagslega stöðu Arnarfells og möguleika félagsins til að halda verkinu áfram.  Ekki hefur tekist að semja um lausn á þeim málum.

Samkvæmt ákvæðum verksamninganna mun Landsvirkjun nú taka verkið yfir. Landsvirkjun og Arnarfell vinna að því í sameiningu að yfirtakan fari fram á farsælan hátt þannig að verkið haldi áfram án tafa og að hagsmunir starfsmanna á vinnusvæðinu séu tryggðir.

Fréttasafn Prenta