Frétt

Búðarhálsvirkjun breytir ekki áformum í neðri hluta Þjórsár

6. febrúar 2008
Eins og fram hefur komið hefur Landsvirkjun átt í viðræðum við fjölmarga áhugasama aðila um raforkukaup úr virkjunum á Suðurlandi til notkunar í hátækniiðnaði af ýmsu tagi sem staðsettur yrði á Suður- og Suðvesturlandi.
 
Ljóst er að eftirspurn eftir raforku er mun meiri en sem nemur orkugetu þeirra þriggja virkjana í neðri hluta Þjórsár sem nú eru í undirbúningi, þ.e. Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun.

Af þessum sökum hefur Landsvirkjun tekið aftur til skoðunar áform um byggingu Búðarhálsvirkjunar. Sú virkjun var lögð til hliðar á sínum tíma þar sem hún þótti ekki nægilega hagkvæm í ljósi þess að ekki varð af veitu vatns til Tungnaár ofar á vatnasviðinu.  Þar sem mögulegir orkukaupendur nú eru líklegir til að greiða hærra verð en áður má reikna með að sala á raforku frá Búðarhálsvirkjun geti nú orðið ábatasöm.
 
Landsvirkjun stefnir eftir sem áður að því að byggja fyrst nýjar virkjanir í Þjórsá í því skyni að selja orku til hátækniiðnaðar á Suður- og Suðvesturlandi.  Reynist möguleikar á raforkusölu meiri en sem nemur orkugetu virkjananna í neðri hluta  Þjórsár verði þess einnig freistað að ná hagfelldum samningum um sölu á raforku úr Búðarhálsvirkjun.

Virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár voru metnar í 1. áfanga rammaáætlunar og fengu þar mjög jákvæða umsögn.  Virkjanirnar hlutu samþykki í mati á umhverfisáhrifum árið 2004 og hönnun þeirra er nú á lokastigi þar sem áhersla er lögð á að draga sem mest úr umhverfisáhrifum í samvinnu við landeigendur og sveitarstjórnir.

Hönnun Búðarhálsvirkjunar getur tekið breytingum sem leiða til aukinnar hagkvæmni ef virkjun og/eða miðlanir yrðu byggðar ofar á vatnasviði hennar.  Í vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar sem nú er nýhafin á vegum ríkisstjórnarinnar verða slík mannvirki metin í samanburði við aðra virkjunarkosti.
 
Landsvirkjun hefur til skoðunar hvort mögulegt sé að veita efstu kvíslum Skaftár til Tungnaár án þess að jökulvatn fari um Langasjó. Sá möguleiki ásamt Bjallavirkjun í Tungnaá ofan Sigöldustöðvar og miðlunarlón í farvegi Tungnaár eru allt kostir sem bornir verða saman við aðra virkjunarkostií þeim áfanga rammaáætlunar sem nú er að hefjast.

Landsvirkjun telur að öðru jöfnu skynsamlegt að draga ákvörðun um byggingu Búðarhálsvirkjunar þar til að skýrist hverjar niðurstöður í rammaáætlun verða til þess að tryggja sem mesta hagkvæmni virkjunarinnar, nema að þörf verði fyrir orku Búðarhálsvirkjunar áður en þeirri vinnu lýkur og hægt verði að selja hana á verði sem uppfyllir arðsemiskröfur fyrirtækisins.
 
Búðarhálsvirkjun
  • Áætlað afl Búðarhálsvirkjunar verður um 80-90 MW og orkugeta allt að 575 GWst/ári.
  • Inntakslón Búðarhálsvirkjunar, Sporðöldulón, verður myndað með um 2,3 km langri stíflu yfir Köldukvísl, skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár rétt neðan við Hrauneyjafossstöð.
  • Mesta hæð stíflunnar verður um 24 m. Áætlað flatarmál lónsins er 7,5 km2.
  • Stöðvarhús Búðarhálsvirkjunar verður ofanjarðar og grafið inn í hlíð Búðarháls við Sultartangalón.
  • Frá stöðvarhúsinu verður um 330 m frárennslisskurður út í lónið. Frá Sporðöldulóni verður aðrennslisskurður inn í Búðarháls þaðan sem vatnið fer um 4 km löng aðrennsligöng að stöðvarhúsinu.
  • Lögð verður um 17 km löng 220 kV háspennulína frá Búðarhálsstöð að tengivirki við Sultarstangastöð til þess að tengjast landskerfinu.
  • Búðarhálsvirkjun hlaut samþykki í mati á umhverfisáhrifum árið 2001. 
  • Landsvirkjun hóf framkvæmdir við byggingu stöðvarinnar í kjölfarið enda liggja öll tilskilin leyfi fyrir. 
  • Lagður var aðkomuvegur um Búðarháls með brú yfir Tungnaá og grafið var fyrir stöðvarhússgrunninum.

 

Fréttasafn Prenta