Frétt

Varastöðin í Elliðaárdal afhent Reykjavíkurborg

15. febrúar 2008
Varastöðin í Elliðaárdal var hluti af stofnframlagi Reykjavíkurborgar til Landsvirkjunar við stofnun fyrirtækisins árið 1965. Um árabil skilaði aflstöðin mikilvægri raforkuframleiðslu á álagstímum sem tryggði nægilegt rafmagn á höfuðborgarsvæðinu. Aflstöðin í Elliðaárdal hefur ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðan á 9. áratug síðustu aldar.
 
Í samkomulagi Landsvirkjunar og Reykjavíkurborgar felst að borgin rífi bygginguna og að landið sem fylgir stöðinni, þrjár spildur í Elliðaárdal, samtals rúmir 15.000 m2, verði hluti af útivistarsvæðinu í Elliðaárdal.
 
Það var Friðrik Sophusson, forstjóri, sem afhenti Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra lyklana að varastöðinni við undirritun samkomulagsins í dag.
 
Veturinn 1943 hafði orðið tilfinnanlegur rafmagnsskortur í höfuðborginni og var þá gerð tillaga um að koma sem fyrst upp varastöð við Reykjavík. Var þá hafin undirbúningur að byggingu varastöðvarinnar við Elliðaár með eimhverfli og tilheyrandi katli, sem kynda mátti með kolum eða olíu, eftir því sem ódýrast væri hverju sinni. Framkvæmdir hófust 1946 og tók hún til starfa í apríl 1948. Afl stöðvarinnar var um 7,5 MW í upphafi.
 
Stöðin notaði kælivatn úr Elliðaánum og hún var byggð þannig að auk rafmagnsframleiðslunnar gat hún í kuldaköstum skerpt á hitaveitukerfinu. Í árslok 1966 var varastöðin stækkuð í 19 MW. Frá þeim tíma var hún rekin eftir þörfum allt til ársins 1986 þegar raforkukerfið hafði styrkst að því marki að ekki var lengur þörf á að reka stöðina.
 

Afhending lykla að varastöðinni

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, heldur á lyklum varastöðvarinnar sem
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar afhenti honum.
 
Varastöðin við Elliðaár
 
Varastöðin í Elliðaárdal

Fréttasafn Prenta