Frétt

Fornleifarannsóknir vegna nýrra virkjana í Þjórsá hafnar

2. apríl 2007

Ólíkt öðrum vatnsaflsvirkjunum sem Landsvirkjun hefur byggt þá eru fyrirhugaðar virkjanir í Þjórsá staðsettar í byggð. Af þessu leiðir að virkjunarframkvæmdir hafa meiri áhrif á fornleifar en vatnsaflsvirkjanir sem áður hafa verið byggðar.

Fornleifaskráning við Þjórsá var framkvæmd í tengslum við mat á umhverfisáhrifum sumrin 2001 og 2002 og í samræmi við úrskurð Fornleifaverndar ríkisins eru fornleifarannsóknir á hluta fornleifanna sem fundust nú hafnar. Byrjað var að rannsaka gamlar rústir við Bæjarstæði Akbrautar og í sumar verða gamlar rústir í landi Þjótanda rannsakaðar.

Markmið rannsóknanna á bæjarstæði Akbrautar var að kanna til hlítar hvort einhverjar leifar kynnu að leynast undir núverandi húsum, sem rannsaka þyrfti frekar. Grafnir voru 8 prufuskurðir í þessu tilgangi. Engin mannvirki komu í ljós, aðeins vísbendingar um ung mannvistarlög frá 20. öld. Allt bendir til þess að núverandi mannvirki á staðnum hafi nánast þurrkað út öll verksummerki fyrstu húsanna sem þarna voru byggð um miðbik 19. aldar, enda breiða núverandi hús talsvert úr sér og eru flest grafin niður.

Fornleifafræðistofan annast rannsóknir á fornleifum í sumar fyrir Landsvirkjun í samráði við Fornleifavernd ríkisins.

  Fornleifarannsókn við bæinn Akbraut

Prufuhola grafin í hlöðutótt á bæjarstæði Akbrautar. (Ljósm. BFE)

Fréttasafn Prenta