Frétt

RES Orkuskólinn á Akureryri settur í fyrsta sinn

18. febrúar 2008

RES Orkuskólinn (RES – the School for Renewable Energy Science) er einkarekin mennta- og vísindastofnun sem mun byggja starfsemi sína á forystu Íslendinga á sviði orkumála. Boðið er upp á eins árs alþjóðlegt meistaranám (MSc) í vistvænni orkunýtingu, auk leiðtogaskóla og sumarnámskeiða með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Skólinn er staðsettur á Akureyri og starfræktur í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. 31 nemandi frá tíu löndum hefja nú meistarnám við skólann í vistvænni orkunýtingu. Var skólinn settur þann 9. febrúar síðastliðinn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra setti skólann við hátíðlega athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri, en auk hennar fluttu ávörp þeir Dr. Björn Gunnarsson, forstöðumaður RES, Tryggi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, Dr. Masami Nakagawa, prófessor við Colorado School of Mines í Bandaríkjunum og Dr. Tadeusz Kulik, aðstoðarrektor Tækniháskólans í Varsjá, eins fremsta tækniháskóla Evrópu. Þá veitti Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins nemendum RES styrk til tölvukaupa, auk þess sem Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri flutti nemendum kveðju frá háskólanum.

Yfir 30 nemendur frá tíu löndum
Mikil ásókn hefur verið í skólann og eru rúmlega 30 nemendur víðsvegar að úr heiminum skráðir til náms á komandi skólaári. Nemendurnir koma flestir frá erlendum háskólum þar sem þeir hafa lagt stund á verkfræði eða raunvísindi á meistara- og doktorsstigi. Námið er byggt upp sem eins árs, þriggja anna nám og verður á þessu ári boðið upp á nám á sviðum jarðvarma, efnarafala, og vistvæns eldsneytis og lífmassa. Stefnt er að því að fjölga þessum sviðum og munu fjögur ný bætast við á næstu árum: vatnsaflsorka; vind- og sjávarfallsorka; sólarorka; og orkukerfi og orkustjórnun.

Samstarf við erlendar rannsóknarstofnanir
Öflugt samskiptanet hefur verið byggt upp í kringum skólann og verður margvíslegt samstarf haft við viðurkennda erlenda rannsóknarháskóla og stofnanir. Stór hluti kennara við RES mun koma frá þessum skólum, meðal annars frá Warsaw University of Technology, Technical University of Kosice, Technical University of Lisbon, Columbia University, Norwegian University of Science & Technology og Colorado School of Mines. Þá verður einnig mikið samstarf við íslenska skóla, stofnanir og fyrirtæki, s.s. Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, ENEX og ÍSOR.

Orkuvörður ehf. eiga og starfrækja skólann. Hluthafar í Orkuvörðum eru Þekkingavörður ehf., RARIK, KEA, Gift fjárfestingarfélag, Landsvirkjun, Norðurorka, Akureyrarbær og Landsbanki Íslands.

Nánari upplýsingar um skólann eru að finna á heimasíðu RES á slóðinni: www.res.is
 
Setning RES orkuskóla í febrúar 2008

Nemendur, starfsmenn og gestir við setningu RES orkuskóla á Akureyri

Fréttasafn Prenta