Frétt

Landsvirkjun selur raforku til gagnavers Verne Holding

26. febrúar 2008
Verne Holding ehf. er fyrirtæki í eigu Novator hf. og General Catalyst Partners. Þá voru jafnframt undirritaðir samningar um aðstöðu Verne Holding á Keflavíkurflugvelli og um gagnaflutninga um ljósleiðara vegna starfsemi netþjónabúsins. Það er fyrirtækið Farice sem annast gagnaflutningana og er það í meirihlutaeigu Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja.
 
Samningsbundið rafmagn til gagnaversins er 25 MW og 210 GWst á ári, og eykst orkunotkun í þrepum á árunum frá 2009 til 2012.  Kaupréttur er á öðrum 25 MW.  Kaupskylda er á verulegum hluta orkunnar.  Samningstíminn er 20 ár frá árinu 2009, með möguleika á 10 ára framlengingu. Sá fyrirvari er í samningum Verne og Landsvirkjunar að öll leyfi fáist, þar á meðal virkjunarleyfi fyrir virkjunum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.
 
Fram kom við undirritunina að orkuþörf gagnavera í heiminum eykst óðfluga og að græn og endurnýjanleg orka frá vatnsafli og jarðhita verður sífellt eftirsóknarverðari.
 
Fjármála-, iðnaðar- og samgönguráðherra voru viðstaddir undirritun samninganna og fram kom í máli Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, að þetta væru mikil tímamót þar sem til kæmi umhverfisvæn stóriðja sem skapi hátæknistörf. Hann sagði að samningar sem þessir fælu í sér þá framtíð sem hann sem iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin öll vildi berjast fyrir.
 
Við undirritun samningsins í dag flutti Friðrik Sophusson kveðju frá viðsemjendum Verne Holding og óskaði fyrirtækinu til hamingju með áfangann. Þá sagði hann:
Eins og menn muna ákvað stjórn Landsvirkjunar sl. haust að selja ekki orku til nýrra álvera á Suðvesturlandi en freista þess í staðinn að auka fjölbreytni viðskiptavina sinna og dreifa þannig áhættu um leið og ýtt væri undir nýjungar í atvinnulífinu.
 
Um svipað leyti tóku Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja þá ákvörðun að kaupa meirihlutann í Farice til að leggja nýjan ljósleiðarastreng til landsins.  Farice tryggir þannig öryggi gagnaflutninga en það er forsenda fyrir því að hægt sé að reka alþjóðleg gagnaver hér á landi.
 
Þessar ákvarðanir eru því mikilvægir þættir í þeim árangri, sem við erum vitni að í dag.
 
Landsvirkjun vinnur nú að undirbúningi virkjana í neðanverðri Þjórsá í því skyni að nýta endurnýjanlega orku til þessa verkefnis og annarra slíkra, sem eru í farvatninu og liggur umhverfismat fyrir. Vonast er til að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Grænt og kolefnislaust rafmagn sem unnið er úr íslensku vatnsafli er nú eftirsótt á alþjóðamarkaði og Landsvirkjun selur nú þegar græn vottorð til fyrirtækja á meginlandi Evrópu.
 
Undirskriftirnar í dag marka ákveðin tímamót í atvinnusögu þjóðarinnar, þegar upplýsingatækni og endurnýjanleg orka leggja grunn að nýju atvinnufyrirtæki á þeim stað á landinu, þar sem menn undir forystu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) hafa snúið vörn í sókn í bókstaflegri merkingu.
 
Undirritun samnings milli Verne Holding og Landsvirkjunar
Páll Magnússon og Vilhjálmur Þorsteinsson undirrita orkusölusamninginn
 
Aðstandendur við undirritun samnings milli Verne Holding og Landsvirkjunar
Aðstandendur samninganna sem undirritaðir voru í dag

Fréttasafn Prenta