Frétt

Orkan í neðri hluta Þjórsár seld með fyrirvara um að leyfi fáist

5. mars 2008
Landsvirkjun hefur á undanförnum mánuðum átt könnunarviðræður við fjölmörg fyrirtæki sem vilja byggja upp starfsemi á sviði hátækni á Suður- og Vesturlandi og hafa áhuga á raforkukaupum úr virkjunum þeim sem fyrirhugaðar eru í neðri hluta Þjórsár. Auk netþjónabúsins má minna á að samningaviðræður eru í gangi við fyrirtæki vegna mögulegrar framleiðlsu á hreinkísli í Þorlákshöfn. Ljóst er að eftirspurnin eftir orku er langt umfram framboð og fyrir liggur að Landsvirkjun hefur ekki aðra virkjunarkosti en í neðri hluta Þjórsár tiltæka til raforkusölu á Suður- og Vesturlandi. Þá er svigrúm í raforkukerfinu til aukinnar orkuframleiðslu lítið þar sem mikil aukning í raforkusölu hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum og eykst áfram á árinu. Benda má á að Becromal hefur orkufreka starfrækslu rafþynnuverksmiðju á Akureyri síðar á árinu með rafmagni frá Landsvirkjun án þess að til komi nýjar virkjanir.
 
Af gefnu tilefni er rétt að árétta að þar sem ekki hefur enn verið gefið út virkjunar- og framkvæmdaleyfi fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár eru samningar Landsvirkjunar við Verne og aðrir orkusölusamningar sem fyrirtækið kann að gera á næstunni við aðila sunnan heiða gerðir með fyrirvara um að tilskildar heimildir fáist fyrir virkjunum í Þjórsá.
 
Undirbúningi virkjana í Þjórsá miðar áfram þannig að framkvæmdir gætu hafist á lok ársins eða á fyrri hluta næsta árs ef allt gengur eftir.

Fréttasafn Prenta