Frétt

Frétt verður fréttaefni

11. mars 2008
Í lok febrúar gekk Landsvirkjun frá raforkusölusamningi vegna netþjónabús á Suðurnesjum. Sá fyrirvari er í samningnum að leyfi fáist fyrir virkjanir í Þjórsá. Í Fréttablaðinu 5. mars er fyrirvara þessum lýst þannig að það sé  „ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir raforkusölu Landsvirkjunar … að hafist verði handa við virkjun Þjórsár, samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Hilmarssyni, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar“.  Ég átti þrjú símtöl við blaðamanninn á meðan hann vann að fréttinni. Í þeim öllum var reynt að skýra að ákvæðinu í samningnum sem hefur að geyma fyrirvarann væri einmitt ekki rétt lýst sem „ófrávíkjanlegu skilyrði“.  Engu að síður var  það orðalag látið standa og eignað mér eins og að ofan má sjá.
 
Fréttablaðið - árétting mars 2008Ég hef um margra ára skeið átt samskipti við fjölmiðla um fréttaflutning af umdeildum málum.  Ég lít á blaðamenn  sem eina af mínum mikilvægustu samstafsmönnum þar sem bestur árangur næst með samvinnu og hreinskilni.  Þegar  illa tekst til eins og í frétt Fréttablaðsins virðist mér að menn missi sjónar af því að markmiðið eigi að vera að greina skilmerkilega frá málefninu fremur en að fréttin sjálf verði fréttaefni. Það gerðist, því í Fréttablaðinu hafa birst ekki færri en fjórar fréttir í kjölfarið sem fela í sér viðbrögð  ráðherra, alþingismanna, Landsvirkjunar og baráttufólks við „skilyrðinu ófrávíkjanlega“.  Orðalagið í fréttinni kynti undir deilum fremur en upplýsti eins og sjá má af snörpum orðaskiptum sem urðu á Alþingi um fréttina.
 
Landsvirkjun ræðir nú við fjölmörg fyrirtæki sem vilja byggja upp hátækni á Suðurlandi og Suðurnesjum. Sú uppbyggingin þarf raforku. Landsvirkjun á ekki aðra virkjunarkosti en í Þjórsár fyrir hátæknina. Það er því eðlileg varfærni að setja í orkusölusamningum fyrirvara um að heimildir fáist fyrir virkjun. Fyrirvarinn felur ekki í sér neinar kröfur eða skilyrði á hendur þriðja aðila og á ekki að vera deiluefni. 

Þorsteinn Hilmarsson

Fréttasafn Prenta