Frétt

Mikið álag á framleiðslukerfi Landsvirkjunar

17. mars 2008
Undanfarin misseri hefur Landsvirkjun framleitt raforku til gangsetningar á stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga sem gerði Norðuráli kleift að flýta gangsetningu en virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja eiga að  framleiða raforku í þágu stækkunarinnar til frambúðar. Sú raforkuframleiðsla Landsvirkjunar nýtist rafþynnuverksmiðju Becromal á Akureyri framvegis en verksmiðjan tekur til starfa seinna á árinu.
 
Við bilun í Sultartangastöð undir lok síðasta árs féll út 120 MW framleiðslugeta í kerfi Landsvirkjunar. Stöðin er einungis komin í gagnið að háflu leyti en verður  komin í lag í lok apríl.  Þessu var mætt hjá Landsvirkjun með því að vara alla notendur ótryggðrar orku við að mögulega þyrfti að takmarka afhendingu á rafmagni til þeirra. Mögulegt reyndist að framleiða í Fljótsdalsstöð rafmagn inn á raforkukerfi landsins því að álver Fjarðaáls í Reyðarfirði var ekki komið í fullan rekstur. Með þessum ráðstöfunum var hægt að tryggja nægilega framleiðslu á raforku til viðskptavina Landsvirkjunar.
 
Þó að framleiðslukerfi Landsvirkjunar sé nú nánast fullnýtt, þá er framleiðslugetan háð veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. Mikil rigningatíð í vetur hefur því einnig hjálpað til við þessar erfiðu aðstæður. Þá hafa  loðnubræðslur notað minni orku en oft áður og ekki  hafa komið langir kuldakaflar sem  krefjast mikillar raforku til húshitunar á svæðum þar sem ekki eru hitaveitur. Þá vildi það til happs við þessar aðstæður að einn stórnotandi Landsvirkjunar þurfti að draga úr kaupum sínum á orku vegna breytinga á framleiðslulínu sinni framan af árinu.
 

Fréttasafn Prenta