Frétt

Viljayfirlýsing um netþjónabú undirrituð

18. apríl 2008
Á fundinum var greint frá viljayfirlýsingu Greenstone og LV um raforkukaup til búsins og jafnframt undirrituð viljayfirlýsing milli Greenstone og Farice um gagnaflutninga.

Viljayfirlýsingar Greenstone ehf. og ofannefndra aðila um lóð, raforku og gagnaflutninga fela í sér fjárfestingu Greenstone upp á um 10 milljarða kr ef af verkefninu verður. Stefnt er að því að rekstur fyrsta áfanga netþjónabúsins hefjist 2010 - 2011.

Uppbygging og ný störf í Þorlákshöfn
Viljayfirlýsing Sveitarfélagsins Ölfus og Greenstone felur í sér að sveitarfélagið mun úthluta Greenstone 50.000 m2 lóð á skipulögðu iðnaðarsvæði við Þorlákshöfn. Fyrirhugað er að byggja þar allt að 40.000 m2 hús í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn verður tekinn í notkun árið 2010. Áætlað er að um 25-30 manns starfi við fyrirtækið í fyrri áfanga auk þess sem afleidd störf verði 25-30. Störf þessi eru fjölbreytt s.s. hátæknistörf, störf iðnaðarmanna, vélvirkja, öryggisgæsla og þjónustustörf vegna erlendra viðskiptavina búsins.

Öflug tenging fyrir gagnaflutninga
Viljayfirlýsing Greenstone við Farice felur í sér samkomulag um gagnaflutning til og frá Íslandi til meginlands Evrópu. Með lagningu nýs sæstrengs á þessu ári, Danice, verður tenging fyrir gagnaflutninga til og frá Evrópu fullnægjandi fyrir starfrækslu netþjónabúsins.

Raforkuþörfin allt að 50 MW
Þann 2. apríl sl. var skrifað undir viljayfirlýsingu í Hollandi milli Greenstone ehf. og LV um sölu á raforku til netþjónabúa. Helstu ákvæði viljayfirlýsingarinnar milli Greenstone og LV eru að fyrirtækin hyggjast ganga frá samningi um sölu á 50 MW af rafmagni sem ætlunin er að fari til tveggja búa sem taka um 25 MW hvort. Stefnt er að því að afhending rafmagns hefjist í byrjun árs 2010. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að aðilarnir hafa áhuga á auknum viðskiptum vegna fleiri búa í framtíðinni ef um semst. Fyrirvari er gerður af hálfu LV um orkuöflun og leyfi til byggingar nýrra virkjana eins og í öðrum samningum fyrirtækisins við mögulega raforkukaupendur. Greenstone gerir fyrirvara um lausn á gagnaflutningi til og frá landinu og um samning við Landsnet um raforkuflutning. Stefnt er að því að ljúka við rafmagnssamning fyrir 1. júlí á þessu ári.

Áform um enn fleiri netþjónabú
Greenstone hefur enn fremur til skoðunar að reisa tvö eða fleiri hátæknivædd netþjónabú til viðbótar hér á landi á næstu 3-5 árum og má áætla að heildarfjárfesting vegna þeirra geti numið allt að 50 milljörðum kr. Greenstone leggur áherslu á að til að markmið af þessu tagi náist að fullu sé þörf á nýrri ljósleiðaratengingu vestur um haf.

Nokkrir augljósir kostir eru því samfara að byggja upp netþjónabú hérlendis, einkum staðsetning, umhverfisvæn orka og loftslag auk þess sem góður aðgangur að kælivatni hefur mjög mikið að segja. Áætlað er að rekstur netþjónabúa hér á landi geti verið að minnsta kosti 20% hagkvæmari en í helstu samkeppnislöndunum.

Greenstone ehf. er í eigu TCN í Hollandi, GEO Í Bandaríkjunum og Amicus Capital Invest á Íslandi. Stofnendur Greenstone og samstarfsaðilar hafa sérþekkingu og reynslu af rekstri netþjónabúa erlendis s.s. í London, New York, Amsterdam, Emshaven, Rotterdam og Groningen.

TCN er alþjóðlegt fasteignafélag með höfuðstöðvar sínar í Hollandi. TCN á og rekur fjölda netþjónabúa víðsvegar um heiminn. Fyrirtækið stefnir að umtalsverðum vexti á þessu sviði á næstu 5-10 árum.

GEO er bandarískt fjárfestingar- og ráðgjafarfélag á sviði reksturs og byggingar netþjónabúa. GEO hefur komið að byggingu, eignarhaldi og rekstri nokkurra af 10 stærstu netþjónabúum heims. Einnig hefur GEO víðtæka reynslu og þekkingu af lagningu ljósleiðarakerfa víða um heim.

Amicus Capital Invest er íslenskt ráðgjafarfyrirtæki sem hefur þjónustað erlenda og
íslenska fjárfesta á erlendum vettvangi á sl. árum.
 

Fréttasafn Prenta