Frétt

Ráðstafanir til að draga úr skaða á náttúru og mannvirkjum af hamfaraflóði úr Bárðarbugu

7. maí 2008
 
Í ljósi Gjálpargossins í Bárðarbungu 1996 hefur Landsvirkjun látið fara fram rannsókn á vatnsmagni og útbreiðslu  ef hamfaraflóð frá slíku gosi leitaði  til vesturs frá jöklinum frekar en um Grímsvötn til  suðurs eða til norðurs. Slíkt flóð færi inn í Hágöngulón og við rof á flóðvari þar færi flóðið að nokkru niður farveg Köldukvíslar og um Tungnaá út í Þjórsá en um 90% vatnsmagnsins mundi leita í gamlan flóðfarveg sem liggur inn í friðland Þjórsárvera.

Í ljósi þess áformar Landsvirkjun  að gera veikleika, svonefnt flóðvar, í Þúfuversstíflu í Kvíslaveitu í friðlandinu.  Með því móti gefur stíflan sig þannig að skaði af flóðinu bæði á náttúru og mannvirki verði sem minnstur. Ef  engin  virkjunarmannvirki væru á svæðinu mundi  flóð af þessu tagi  leita  út í farveg Köldukvíslar og í flóðfarvegin  inn í friðlandið.

Ef Landsvirkjun gerir ekki flóðvar í Þúfuversstíflu mundi hamfaraflóð rjúfa stærri stíflur norðar í friðlandinu og vatn fara yfir stærra svæði en ella. Hugmyndir Gísla Már Gíslasonar sem fram komu í Fréttablaðinu  6. maí um flóðvar í aðalstíflu Hágöngulóns  mundi ekki breyta því að flóðið færi um gamla flóðfarveginn og inn í friðlandið.  Með í því flóði yrði  að auki allt innihald Hágöngulóns sem er töluverð viðbót í vatnsmagni.

Eins og sjá má af ofangreindu er það  alrangt sem haft er eftir Gísla að  með  aðgerðunum sé Landsvirkjun að tryggja að flóðið "fari örugglega" yfir friðlandið í Þjórsárverum.  Auk þess les Gísli rangt út úr korti  þegar hann telur útbreiðslu flóðsins  í Þjórsárverum eftir aðgerðir Landsvirkjunar nema um 80 ferkílómetrum.  Rétt er að þetta eru um 30 ferkílómetrar og að stórum hluta í farvegi Þjórsár.  Straumhraði flóðsins  yrði einungis mikill á takmörkuðum svæðum í friðlandinu.  Stærsti hluti flóðasvæðisins mundi fá yfir sig kyrrt vatn í fáa daga sem ekki er víst að skaði gróðurinn.  Þessu virðist Gísli ekki heldur gera sér grein fyrir.

Það sætir furðu að þegar Landsvirkjun gerir varúaðarráðstafanir vegna hugsanlegs hamfarafljóðs til þess að vernda  bæði náttúru og mannvirki þá skuli  þeirri viðleitni vera snúið upp í andhverfu sína.
 
Á kortinu hér að neðan sést hámarksútbreiðsla hamfaraflóðs innan friðlands í Þjórsárverum. Smella má á myndina til að fá stærri útgáfu af kortinu.
 
 Flóðvör í Þjórsá 
 
 

Fréttasafn Prenta