Frétt

Landsvirkjun undirritar samning við Háskóla Íslands

15. maí 2008
Samningurinn felur í sér að Landsvirkjun greiði kostnað við stöðu dr. Johm Douglas, gestaprófessors við verkfræðideild Háskóla Íslands, í eitt ár. Markmið samningsins er að efla rannsóknir og styrkja kennslu á sviði jarðskjálftaverkfræði og tæknilegrar jarðskjálftafræði.
 
Landsvirkjun rekur virkjanir á þekktum jarðskjálftasvæðum og hyggur á byggingu virkjana á Suðurlandi, þar sem mest hætta er talin á stórum jarðskjálftum á Íslandi. Einnig er ráðgert að byggja virkjanir á Norðausturlandi í námunda við upptök allstórra jarðskjálfta. Með hliðsjón af því er það hagsmunamál fyrirtækisins að rannsóknir á sviði jarðskjálftafræða séu efldar í landinu.
 
Fyrirtækið hefur í fjöldamörg ár átt í mjög góðu samstarfi við Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftaverkfræði, Háskóla Íslands, á Selfossi en þar mun dr. Douglas starfa. Með samningnum eru rannsóknir og kennsla á þessi sviði efldar enn og telur Landsvirkjun það mikilvægt fyrir starfsemi sína og þjóðarhag.
 
Dr. John Douglas er með doktorspróf í byggingar- og umhverfisverkfræði frá Imperial College of Science, Technology and Medicine í London. Hann er einnig með próf í stærðfræði frá sama skóla. Rannsóknir dr. John Douglas hafa einkum beinst að þróun stærðfræðilíkana sem lýsa eðli og áhrifum jarðskjálfta svo og  mati á jarðskjálftavá, enn fremur áhættugreiningu og áhættustjórnun. Eftir dr. John Douglas hafa birst fjölmargar greinar í virtum alþjóðlegum tímaritum.
 
Háskóli Íslands og Landsvirkjun undirrita samning um jarðskjálftarannsóknir
 
Aðilar samningsins við undirritun hans. Á myndinni eru frá vinstri: Sigurður M. Garðarsson,
formaður umhverfis- og byggingarverkfræðiskorar HÍ; Ragnar Sigbjörnsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HÍ í jarðskjálftaverkfræði; Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar;
 Ebba Þóra Hvannberg, forseti verkfræðideildar HÍ og Dr. John Douglas frá BRGM Frakklandi.
 
 

Fréttasafn Prenta