Frétt

Tímaritið Forbes segir Búrfellsstöð vera á meðal óvenjulegustu listasafna í Evrópu

23. maí 2008

Tímaritið Forbes tekur reglulega saman lista yfir áhugaverða staði í heiminum. Í vefútgáfu þess er í einum slíkum lista farið yfir fjölmarga áhugaverða staði í Evrópu sem allir eiga það sameiginlegt að vera ekki hefðbundin listasöfn. Á stöðunum sem tímaritið fjallar um er samt sem áður hægt að njóta listsýninga eða menningarviðburða.

Á þessum lista er Búrfellsstöð í Þjórsárdal þar sem sjá má listaverk eftir Sigurjón Ólafsson. Margir af þeim stöðum sem sagt er frá í Forbes hafa einnig áhugaverða sögu að segja sem njóta má með þeim menningarviðburðum sem í boði eru.

Á lista tímaritsins eru eftirtaldir staðir:

Kolanáman Zollverein í Essen í Þýskalandi er á heimsminjaskrá Unesco. Kolavinnsla var lögð af árið 1986 og er þar nú boðið upp á fjölbreytta menningarviðburði.

Gasometer í Oberhausen í Þýskalandi er risavaxinn gastankur sem nú hefur verið aflagður. Staðurinn er áhugaverður fyrir hljóðlistamenn. Það tekur hljóð 30 sekúndur að deyja út.

Cisterne Museum er safn tileinkað glerlist í gömlum vatnstanki í Kaupmannahöfn. Þar drýpur vatn af veggjum og rennur um gólf.

La Piscine í Lille í Frakklandi er gömul sundlaug sem nú þjónar hlutverki listasafns. Gestir safnsins ganga í gegnum sturtuklefana inn í sýningarsalina.

Stöðvarhús BúrfellsstöðvarBúrfellsstöð í Þjórsárdal. Þar er hægt að njóta lágmynda eftir Sigurjón Ólafsson á stöðvarhúsinu og listaverk hans Hávaðatröllið, er nærri stöðinni.

Modem í Berlín í Þýskalandi gegndi áður hlutverki raforkuvers. Gólfflöturinn er á við fjóra fótboltavelli.

CaixaForum í Madrid á Spáni var áður fyrr einnig raforkuver. Byggingin er á stólpum og virðist svífa yfir jörðinni. Á einum vegg hússins er 5.000 fermetra "garður" þar sem gróður fær að dafna.

Hangar 7Hangar 7 í Salzburg í Austurríki er flugskýli. Það lítur út eins og þversnið af flugvélavæng og í því eru 1.794 rúður sem gera upplifunina af listaverkum og flugumferðinni í kringum flugskýlið eftirminnilega.

Kunst im Tunnel í Düsseldorf í Þýskalandi. Fyrir marga hefur rýmið meira aðdráttarafl en listin sem njóta má í því. Gólfin eru hallandi og rýmið verður þrengra í annan endann þar sem gólfið og loftið mætast.

Grand Hornu í Belgíu. Bærinn var byggður árið 1810 til að skapa hús og heimili fyrir 1.500 verkamenn. Árið 2002 var hluta húsnæðisins breytt í listamiðstöð. Húsnæði verkamannanna er nú eftirsótt á belgískum fasteignamarkaði.

Grein tímaritsins Forbes: Europe's Oddball Art Galleries >>

 

Fréttasafn Prenta