Frétt

Alcoa og Landsvirkjun semja um djúpborun við Kröflu

27. júní 2008

Samkomulagið felur í sér að Alcoa leggur 3,5 milljónir Bandaríkjadala, eða jafngildi um 300 milljóna íslenskra króna, í borun tilraunaholu Landsvirkjunar við Kröflu, niður á þriggja og hálfs kílómetra dýpi.

Borun holunnar hófst í síðustu viku og gengur vel. Ráðgert er að hún verði dýpkuð niður á fjögurra til fimm kílómetra á næsta ári. Alcoa verður einnig aðili að dýpkuninni og rannsóknahluta djúpborananna, ásamt hópi íslenskra og erlendra fyrirtækja og stofnana.

“Það býr mikill kraftur í landinu í Þingeyjarsýslu og það er heiður fyrir Alcoa að taka þátt í því spennandi verkefni sem djúpborunin er. Ef vel tekst til er ljóst að íslensk tækni mun skapa ný tækifæri á vinnslu grænnar orku um allan heim,” sagði Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa við undirritunina.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar sagði: “Djúpborunarverkefnið er mjög mikilvægt verkefni fyrir Landsvirkjun, fyrir Norðurland og landið allt. Nýting á endurnýjanlegum orkuauðlindum og útflutningur grænnar orku hefur verið ein af forsendunum fyrir uppbyggingu öflugs velferðarþjóðfélags á Íslandi síðustu áratugi og mun verða það áfram. Með aukinni umræðu um loftslagsmál er fyrirsjáanlegt að áhuginn á íslenskum aðferðum við að vinna endurnýjanlega orku mun aukast enn um allan heim og djúpborunarverkefnið treystir forskot okkar á þessu sviði í alþjóðlegu umhverfi.”

Íslenska djúpborunarverkefnið felst í því að kanna hagkvæmni þess að vinna orku og efnasambönd úr háhitasvæðum með því að bora mun lengra niður í jörðina en áður hefur verið gert. Þar er að finna miklu meiri hita og þrýsting en í efri jarðlögum. Talið er að slíkar borholur gætu framleitt allt að tíu sinni meiri raforku en borholur í dag.

Samningur um vísindahluta djúpborananna var kynntur í september síðastliðnum. Samkvæmt því munu Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja einnig bora holur á sínum svæðum, sambærilegar við þá sem Landsvirkjun borar nú við Kröflu. Kostnaður við hverja þeirra er áætlaður á bilinu 700-1.000 milljónir króna. Auk Landsvirkjunar og Alcoa eru aðilar að verkefninu: Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja hf., Orkustofnun og StatoilHydro. ICDP (International Continental Scientific Drilling Program), sem er alþjóðlegur sjóður sem styrkir vísindaboranir um allan heim og Bandaríski vísindasjóðurinn NSF (National Science Foundation) munu einnig veita rannsóknastyrki til verkefnisins. Áætlanir gera ráð fyrir að tilraunaorkuvinnslu ljúki árið 2015 eða þar um bil.

 

Fréttasafn Prenta