Frétt

Kröfur Landsvirkjunar til verktaka og þjónustuaðila varðandi umhverfis- og öryggismál

4. júlí 2008

Öllum sem vinna fyrir Landsvirkjun ber að uppfylla þessar kröfur hvort sem um er að ræða lítil eða stór verk, og er ætlast til að öll útboð sem varða þessa málaflokka styðjist við þessar kröfur.

Með þessu er stigið mikilvægt skref til þess að samræma umhverfis- og öryggismál þeirra verktaka sem vinna fyrir Landsvirkjun. Þar með hefur verið skilgreint með hvaða hætti Landsvirkjun hyggst taka á þeim frávikum og brotum sem hugsanlega koma upp ef verktakar fylgja ekki þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra í þessum málum.

Í þessum kröfum er fyrst og fremst stuðst við lög og reglugerðir sem varða umhverfis- og öryggismál. Þá endurspegla þær stefnu fyrirtækisins skv. ISO vottun þessara málaflokka.

Við vottun skv. EN ISO 14001:2004 var unnið að því að meta umhverfisáhrif frá starfsemi Landsvirkjunar og skilgreindir hafa verið þeir þættir í starfsemi fyrirtækisins sem og verktaka og þjónustuaðila sem geta haft afgerandi umhverfisáhrif.

Markmið Landsvirkjunar er að gera fyrirtækið að öruggum og slysalausum vinnustað þar sem öryggi starfsmanna er haft að leiðarljósi. Sama gildir um þá vinnustaði þar sem aðrir en starfsmenn Landsvirkjunar vinna að verkefnum fyrir fyrirtækið.

Kröfur þessar eiga einnig við um undirverktaka og ná til birgja sem veita Landsvirkjun þjónustu, eða útvega fyrirtækinu vörur sem tengjast raforkuframleiðslu á einn eða anna hátt. Kröfurnar eru settar fram í leiðbeiningarskjölum í gæðastjórnunarkerfi Landsvirkjunar og eru:

LEI-237 „Kröfur sem Landsvirkjun gerir til verktaka og þjónustuaðila varðandi umhverfismál”
LEI-238 „Kröfur sem Landsvirkjun gerir til verktaka og þjónustuaðila varðandi öryggis-, heilbrigðis-, og vinnuumhverfismál (ÖHU)“

 

Fréttasafn Prenta