Frétt

Almennri umferð hleypt á Kárahnjúkastíflu

15. júlí 2008

Mikill straumur gesta hefur verið í upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar í Végarði í sumar til þess að kynna sér Kárahnjúkavirkjun og Fljótsdalsstöð en áður höfðu allt að 60 þúsund gestir komið þangað á byggingartíma virkjunarinnar. Framan af sumri hafði ferðamönnum verið leyft að fara yfir Kárahnjúkastíflu í hádeginu þegar aðstæður leyfðu.

Framkvæmdir standa enn yfir í og við stífluna við frágang og þess vegna geta verið tímabundnar tafir við að fara þar um. Ferðamenn eru beðnir að virða leiðbeiningar og sérstaklega að stansa ekki eða fara út úr bílum á svæðum þar sem það er bannað. Landsvirkjun hefur merkt ákveðna staði þar sem ferðamenn geta lagt bílum sínum og litast um við stífluna og Hálslón.

Leiðin um Kárahnjúkastíflu tengir saman Vesturöræfi og Brúaröræfi og er ákjósanleg leið frá Austurlandi í Kverkfjöll, Herðubreiðarlindir og fleiri staði vestar á hálendinu.

Bundið slitlag er að stíflunni frá  Egilsstöðum og tekur sú ferð um  einn og hálfan tíma en þegar lengra er haldið taka við fjallavegir sem  ætlaðir eru jeppum og fjórhjóladrifsbílum.

 

Fréttasafn Prenta