Frétt

Fara þarf hægar í sakirnar þegar Norðlingaölduveita er slegin af

15. júlí 2008

Fréttatilkynningin er svohljóðandi:

Virkjun og stækkun getur farið saman

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefur lýst því yfir að það sé hans skoðun að friðlýsa eigi Þjórsárver og hætta við Norðlingaölduveitu. Hægt er að taka undir með ráðherranum um mikilvægi þess að stækka friðlandið, en fara þarf hægar í sakirnar þegar Norðlingaölduveita er slegin af.

Norðlingaölduveita hefur tekið miklum breytingum frá fyrstu tillögum og hefur verið að þróast frá stóru söfnunarlóni að litlu inntakslóni þar sem vatni verður dælt yfir í Þórisvatn. Hugmyndir um frekari Kvíslarveitur hafa verið slegnar af og fyrir liggur samþykkt um Norðlingaölduveitu sem er langt frá þeim tillögum sem lagt var af stað með í upphafi.

Samvinnunefnd miðhálendis, sem er skipulagsvald á hálendi Íslands, lagðist gegn Norðlingaölduveitu í ágúst 2005 vegna þess að hluti þeirrar framkvæmdar gerði ráð fyrir því að veita vatni frá Þjórsárverum í gegnum Kvíslarveitur og þurrka þannig upp mikilvægt vatnasvið svæðisins. Nefndin samþykkti hins vegar Norðlingaölduveitu í 567,5 m.y.s., án set- og veitulóna og mannvirkja tengdum þeim, þar sem hún taldi að við þær breytingar væru umhverfisáhrifin orðin ásættanleg. Norðlingaöldulón í 567, 5 m.y.s. mun að mestu leyti rúmast í núverandi árfarvegi Þjórsár og því eru umhverfisáhrif lóns af þessari stærðargráðu hverfandi. Samþykkt samvinnunefndarinnar gerir ráð fyrir því að nýta vatn sem rennur frá Þjórsárverum, án þess að það valdi skaða á vistkerfi veranna. Vegna ummæla ráðherrans um að slá Norðlingaölduveitu af er mikilvægt að rifja upp að fyrir liggur sáttatillaga samvinnunefndarinnar um verndun Þjórsárvera og skynsamlega nýtingu í efsta hluta Þjórsár. Þetta þarf iðnaðarráðherra að skoða betur áður en grænum og góðum virkjunarkosti er varpað fyrir róða.

Óskar Bergsson, formaður Samvinnunefndar miðhálendis

 

Fréttasafn Prenta