Frétt

Bilanir í spennum í Sultartangastöð

18. júlí 2008

Eins og greint hefur verið frá áður þá urðu alvarlegar bilanir í spennum í Sultartangastöð á síðasta ári.

Þrátt fyrir að báðar vélar Sultartangastöðvar hafi verið úr rekstri um tíma þá kom ekki til skerðingar á orkuafhendingu að öðru leyti en því að ótryggð orka var skert lítilsháttar í lok árs 2007.

Annar spennirinn komst í rekstur í febrúar sl. með því að nota varahluti úr hinum. Ætlunin var að gangsetja seinni spenninn í lok apríl en það tóks ekki þar sem önnur spólan af tveimur nýjum hafði orðið fyrir hnjaski á leið til landsins og reyndist ónothæf. Ný spóla í þann spenni er væntanleg og reiknað er með að spennirinn komist í gagnið um mánaðamótin ágúst/september nk.

Síðastliðinn föstudag, 11. júlí, sló þeim spenni sem kominn var í rekstur út. Við skoðun undanfarna daga hefur komið í ljós að um skemmd á spólu er að ræða og viðgerð verður ekki lokið fyrr en eftir 5-6 mánuði því langur afgreiðslufrestur er á búnaði af þessu tagi. Sultartangastöð verður þess vegna ekki í rekstri fram til ágústloka og síðan verður hún einungis rekin með hálfum afköstum fram undir áramót.

Ekki er ástæða til að ætla að viðskiptavinir verði fyrir óþægindum vegna þessara bilana. Ætla má að heildarkostnaður Landsvirkjunar vegna bilananna verði 150-200 milljónir króna.

 

Fréttasafn Prenta