Frétt

Umræða um styrkveitingu Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar á villigötum

22. júlí 2008

Sigrún Helgadóttir vekur athygli á því í nýútkominni bók sinni um Jökulsárgljúfur að Landsvirkjun kosti nú rannsókn á mögulegri virkjun Jökulsár á Fjöllum.  Af hefur spunnist nokkur umræða á opinberum  vettvangi í þá veru að Landsvirkjun hyggi á virkjun árinnar.  Þetta er mikill misskilningur.  Virkjun Jökulsár hefur ekki verið á dagskrá fyrirtækisins undanfarinn hálfan annan áratug. Orkurannsóknarsjóður Landsvirkjunar hefur veitt styrk í sjálfstætt rannsóknarverkefni um hóflega nýtingu Jökulsár á Fjöllum til raforkuvinnslu.  Þetta er eitt nokkurra tuga fjölbreyttra verkefna sem sjóðurinn styrkir á þessu ári.

Stjórn Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar er skipuð fulltrúum þriggja háskólastofnana og tveimur starfsmönnum Landsvirkjunar og starfar sjálfstætt. Í viðtali sagði Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi rekstor Háskóla Íslands og formaður stjórnar Orkurannsónasjóðsins að með rannsókninni á Jökulsá á Fjöllum væri ekki verið að stefna að virkjun árinnar. "Það er hins vegar sjálfsagt að afla gagna með því að rannsaka svæði eins og þessi og kynnast frumhugmyndum sem menn hafa um virkjanir til þess að bera þær saman við aðrar sem menn ætla sér að fara í. Í þessum anda hefur einmitt fyrsti hluti rammaáætlunar verið unninn, þá tóku menn einmitt Jökulsá á Fjöllum og báru hana saman við Kárahnjúkavirkjun og ýmsar aðrar vatnsaflsvirkjanir. Reyndin var nú sú að Jökulsá á Fjöllum kom út með ein mestu umhverfisáhrifin". Með rannsókninni nú sé verið að rannsaka hvort unnt sé að nýta eitthvað af hinu gríðarmikla vatnsafli Jökulsár án þess að menn verði varir við mannvirki eða breytingu á vatnsrennsli í ánni.

 

 

Fréttasafn Prenta