Frétt

Misskilningur að Kröflustöð 2 valdi raski við Leirhnjúk

8. ágúst 2008

Það er ekki rétt að borun vegna gufuöflunar fyrir svonefnda Kröflustöð 2 fari fram við Leirhnjúk. Fram kom í máli Ómars í Ríkisútvarpinu að Landsvirkjun undirbyggi 12 borteiga og allt að 40 borholur þar. Hið rétta er að borað verður á tveimur nýjum borteigum á Kröflusvæðinu: annars vegar í vesturhlíðum Kröflu og hins vegar um einn kílómetra í norður frá Víti. Teigarnir verða á svæði sem er skilgreint sem iðnarðarsvæði samkvæmt gildandi svæðisskipulagi. Þarna hefur verið borað eftir gufu og hún nýtt um áratugaskeið. Einmitt þarna voru fyrstu borholurnar vegna Kröfluvirkjunar boraðar 1974. Borhola í Vítismó sem boruð var 1976 er sú hola sem næst er Leirhnjúk. Nýju holurnar verða fjær Leirhnjúk en sú hola.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að engin ummerki eru eftir borholur verði þær ekki nýttar. Verði nýjar holur á svæðinu nýttar yrði lítið kúlulaga lokuhús yfir holunni og hljóðdeyfir ásamt tengingu við gufuveituna sem er á svæðinu. Nýting svæðisins undir vesturhlíðum Kröflu og við Víti stóðst mat á umhverfisáhrifum vegna áforma um stækkun Kröflustöðvar. Nýtt stöðvarhús, Kröflustöð 2, yrði í nágrenni núverandi Kröflustöðvar og ekki sýnilegt frá Leirhnjúk.

Ómar benti réttilega á í Ríkisútvarpinu að Leirhnjúkur og Gjástykki séu einstök náttúrufyrirbæri og að byggja mætti upp aðstöðu til kvikmyndasýningar frá Kröflueldum og draga að ferðamenn til að kynna þeim atburðina og skoða síðan svæðið. Starfsfólk Landsvirkjun tekur heils hugar undir þetta en er ósammála Ómari í því að nýting jarðhita og ferðaþjónusta af þessu tagi geti ekki þrifist saman, enda hefur Landsvirkjun sýnt ferðamönnum stórbrotið myndefni frá Kröflueldum í gestastofu í Kröflustöð um mörg undanfarin ár. Þar er opið daglega yfir sumartímann, aðgangur er ókeypis og fjölmargir innlendir og erlendir gestir sem nýta sér það.

Fréttasafn Prenta