Frétt

Landsvirkjun og Jarðboranir undirrita samning um djúpboranir við Kröflu

21. ágúst 2008

Eitt mest krefjandi borverkefni í heimi

Þar sem um er að ræða fyrstu djúpborunarholu sinnar tegundar er verkefnið einstakt á heimsvísu. Vísindamenn víðs vegar um heim fylgjast með verkefninu af áhuga og mikill fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga mun koma að rannsóknarvinnu. Þess er vænst að framkvæmdunum nyrðra ljúki á árinu 2009.

Upphæð verksamningsins við Jarðboranir er rösklega 970 milljónir króna en áætlað er að kostnaður við djúpborunarverkefnið í Kröflu verði á þriðja milljarð að meðtöldum kostnaði við hönnun, rannsóknir og efnisöflun. Landsvirkjun og Alcoa greiða fyrir borun Kröfluholunnar niður á um 3.500 m dýpi en IDDP greiðir fyrir borun frá 3.500 m niður á 4.500 m dýpi, auk kjarnasýnatöku og annarra sértækra rannsókna sem gerðar verða meðan á borun stendur og ekki síður við prófanir á holunni eftir að borun lýkur. Aðilar að íslenska djúpborunarverkefninu eru auk Landsvirkjunar: Hitaveita Suðurnesja hf., Orkuveita Reykjavíkur, Orkustofnun, Alcoa og StatoilHydro ASA en einnig hafa fengist styrkir til verksins, þar á meðal styrkur að upphæð 3,1 milljón Bandaríkjadala frá Rannsóknarsjóði Bandaríkjanna (NSF) og 1,7 milljón dala frá Alþjóðlegum rannsóknarsjóði landborana (ICDP). Undirbúningur framkvæmdanna hefur að mestu verið unninn af sérfræðingum hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og verkfræðistofunni Mannviti, en einnig hefur verið leitað í reynslubanka sérfræðinga víða um heim, einkum til ENEL á Ítalíu.

Miklir möguleikar á nýsköpun

Agnar Olsen, staðgengill forstjóra Landsvirkjunar, leggur áherslu á að verkefnið sé afar vandasamt brautryðjendastarf, þar sem yfirstíga þurfi fjölmörg tæknileg úrlausnarefni áður en unnt verði að nýta gufu með þeim hita og þrýstingi sem er á þessu dýpi. “Það er því mikill fengur fyrir Landsvirkjun að fá til verksins mjög færan verktaka sem þekkir aðstæður vel og Landsvirkjun hefur mikla og góða reynslu af. Borun þessarar holu við Kröflu er líklega eitt mest krefjandi borverkefni sem unnið er að í heiminum um þessar mundir en ef vel tekst til getur árangurinn af því og framhaldsverkefnum hérlendis leitt til stóraukinnar nýtingar háhitasvæða víða um heim í fyllingu tímans. Þar má til dæmis nefna að háhitasvæði er að finna eftir endilangri Kyrrahafsströnd Ameríku, í Afríku, við Miðjarðarhaf og víða í Asíu. Að auki opnast dyr að margs konar nýsköpun og vöruþróun en nýsköpunarmöguleikar þessa verkefnis felast annars vegar í þróun á sérhæfðum mælitækjum, tólum og rannsóknaraðferðum og hins vegar lýtur nýsköpunin að því hvernig ætlunin er að vinna orku við þessar sérstöku aðstæður.”

Agnar bendir jafnframt á mikilvægi þess að nýta græna orku til góðs. “Það er eðlilegt að á 21. öld leitum við nýrra leiða til að nýta af fremsta megni umhverfisvænar orkuauðlindir. Yfirveguð hagnýting íslenskra orkuauðlinda og útflutningur þekkingar er okkar alþjóðlega framlag og þannig leggjum við grunn að nútíma lífsgæðum á ábyrgan hátt.”

Heitasta háhitaholan

Jötunn, einn af borun Jarðborana, mun í haust bora fyrstu 800 metrana við Kröflu en næsta vor tekur Týr, nýjasti borinn í flotanum, við og borar niður á 4.500 m dýpi. Á þessu svæði er óvenju stutt niður á kvikuhólf, eða um 3-5 km og mikil eldvirkni en skemmst er að minnast Kröfluelda á árunum 1975 - 1984 og Mývatnselda á árunum 1724 - 1729. Búast má við að berghiti á 4.500 m dýpi geti verið 450 - 600°C sem gerir djúpborunarholuna í Kröflu að heitustu háhitavinnsluholu í heimi.

Reynslan dýrmætust

Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, segir verkefnið marka ný tímamót í sögu orkuvísinda. “Ef allt gengur að óskum verður ekki einungis um að ræða öflun verðmætrar orku heldur líka öflun verðmætrar þekkingar við alveg nýjar aðstæður. Það er afar mikilvægt að nýta og efla forskot okkar Íslendinga á þessu sviði sem liggur í reynslunni ekki síður en fræðilegri þekkingu. Þannig er það í raun reynslan af jarðhitaöflun og vinnslu við ólíkar aðstæður sem er allra dýrmætust í markaðsstarfi okkar út á við. Félagið hefur verið að hasla sér völl erlendis og um þessar mundir vinnur dótturfélag okkar, Hekla Energy GmbH, til dæmis að borunum á lághitasvæðum í Þýskalandi. Þar eru aðstæður mjög frábrugðnar aðstæðum við Kröflu, bæði hvað varðar jarðlög og hita. Þannig er hitinn á 4-5 km dýpi í Þýskalandi einungis um 150 - 170°C en þó borgar sig að vinna hann vegna þess hve spurn eftir hreinni og vistvænni orku hefur aukist gríðarlega í Þýskalandi og annars staðar í löndum Evrópusambandsins.”

Aldrei verið borað dýpra

Með djúpborunum hefst nýr og spennandi kafli í orkusögunni þar sem tilraun er gerð til að nýta háhitasvæði með gjörbreyttum hætti og sækja vistvæna orku niður á meira dýpi en dæmi eru um áður. Vonir standa til að djúpholurnar geti orðið allt að 5-10 sinnum öflugri en venjulegar háhitaholur og að þær gefi allt að 40-50 MW rafafl hver um sig. IDDP verkefnið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2000 og þegar framkvæmdum lýkur við Kröflu, taka við djúpborunarverkefni á Hengilssvæðinu og á Reykjanesi. Framkvæmdir við IDDP verkefnið munu standa til ársins 2015 og heildarkostnaður er áætlaður hátt í fjóra milljarða króna.

Spennan magnast á 3.500 metra dýpi

Að sögn Bjarna Pálssonar, verkfræðings hjá Landsvirkjun, er venjulega talað um þrenns konar ástand vatns: Í fyrsta lagi fast form eða ís, í öðru lagi vökva og í þriðja lagi gufu en eitt helsta markmið djúpborunarverkefnisins er að komast niður á fjórða birtingarformið: gufu í svokölluðu yfirmarks ástandi sem er allt að 10 sinnum auðugri að orku en venjuleg jarðgufa. Bjarni bendir á að yfirmarks ástand efnis sé nýtt víðar í orkuheiminum, það sé til dæmis notað í kola- og kjarnorkuverum til að fá meiri orku úr streymi efnismassa í gegnum hverfla. “Stóra verkefnið við djúpboranir er að þekkja hvenær við förum úr hefðbundnu ástandi vatns yfir í þetta yfirmarks ástand. Það verður væntanlega á um 3.500 metra dýpi sem fjörið færist í leikinn hjá okkur á Kröflusvæðinu. Við tökum 10 kjarnasýni á 2.400 - 4.500 metra dýpi, flest þeirra í kringum 3.500 m dýpi þar sem við teljum líklegast að skilin á milli venjulegrar jarðgufu og yfirmarks gufu eigi sér stað.”

Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, telur að eitt af helstu tæknilegum úrlausnarefnum við djúpborunina verði að koma fyrir fóðringum við þann þrýsting og hita sem er á þessu dýpi og steypa þær fastar. “Sama steypa hentar t.d. ekki við 10°C á yfirborði og í 400°C niðri og þess vegna er verið að þróa mismunandi steypublöndur í rannsóknarstofu hjá einum af samstarfsaðilum IDDP erlendis. Alþjóðlegt samstarf er nauðsyn við þetta margþætta verkefni en við Íslendingar gegnum engu að síður í lykilhlutverki. Við önnumst sjálfar framkvæmdirnar, öðlumst um leið þekkingu á jarðhitasvæðum sem eru einstök hvert um sig og búum til skiljanlega mynd af þeim.”

Fréttasafn Prenta