Frétt

Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hefjast að nýju

8. ágúst 2008

Um er að ræða útboð á vélum og rafbúnaði. Boðinn verður út í einu útboði vél- og rafbúnaður fyrir Búðarhálsvirkjun sem og fyrir virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Þetta er gert til þess að fá fram betra verð, auk þess sem verulegt hagræði hlýst af því að hafa samstæðan búnað í öllum virkjununum. Í útboðinu verður valréttur á kaupum búnaðar fyrir virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, fram til síðari hluta næsta árs. Ekki er hægt að ganga frá kaupum þess búnaðar fyrr en tilskilin leyfi vegna þeirra virkjana liggja fyrir. Byggingarframkvæmdir vegna Búðarhálsvirkjunar verða boðnar út í haust.

Virkjunaráform Landsvirkjunar á Suðurlandi

Landsvirkjun undirbýr fjórar virkjanir á Suðurlandi. Annars vegar er um að ræða Búðarhálsvirkjun (80 MW) sem nýtir fallið frá útfalli Hrauneyjafossvirkjunar við ármót Köldukvíslar og Tungnaár niður í Sultartangalón. Þar liggja öll leyfi fyrir og undirbúningsframkvæmdir voru hafnar 2002 en var frestað 2003. Hins vegar hefur Landsvirkjun undanfarinn áratug unnið að undirbúningi þriggja virkjana í neðri hluta Þjórsár; Hvammsvirkjunar (82 MW), Holtavirkjunar (53 MW) og Urriðafossvirkjunar (130 MW). Mati á umhverfisáhrifum virkjananna þriggja lauk árið 2003 með jákvæðri niðurstöðu og þær voru einnig metnar í rammaáætlun I (2003) og fengu þar hagstæðustu útkomu nýrra vatnsaflsvirkjana m.t.t. umhverfisáhrifa. Virkjanirnar hafa verið verkhannaðar og unnið er við lokahönnun og undirbúning og að gerð útboðsgagna.

Stefnubreyting

Í nóvember 2007 ákvað stjórn Landsvirkjunar að fyrirtækið myndi ekki að sinni ganga til samningaviðræðna um orkusölu til nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi. Þess í stað yrði lögð áhersla á að auka fjölbreytni viðskiptavina til að fá sem hæst raforkuverð og dreifa áhættu. Fyrirtækin sem hér er um að ræða hyggjast nota orkuna til starfrækslu netþjónabúa og kísilhreinsunar fyrir sólarrafala. Landsvirkjun hefur samið við Verne Holding um rafmagnssölu til netþjónabús sem fyrirtækið hyggst koma upp á Keflavíkurflugvelli. Viðræður standa nú yfir um orkusölu til nokkurra fyrirtækja sem yrðu væntanlega staðsett í Þorlákshöfn. Landsvirkjun áformar að anna orkuþörf þeirra með byggingu virkjana í neðrihluta Þjórsár. Takist að ná samningum við þau munu skapast nokkur hundruð ný störf á svæðinu.

Framleiðsluaukning RTA

Eins og kunnugt er hugðist Rio Tinto Alcan (RTA), eigandi álversins Straumsvík, stækka það um tæplega 200.000 tonna ársframleiðslu með byggingu tveggja nýrra kerskála. Þessi áform náðu ekki fram að ganga þar sem íbúar í Hafnafirði lögðust gegn þeim þegar kosið var um skipulagstillögu er sýndi þessa stækkun. RTA átti síðan í viðræðum við Landsvirkjun um orkukaup til nýs álvers sem staðsett yrði á Reykjanesi eða í Þorlákshöfn. Þau áform voru lögð á hilluna eftir að stjórn Landsvirkjunar gerði fyrrnefnda samþykkt. RTA sér hins vegar fram á möguleika á að auka afkastagetu núverandi álvers án stækkunar með því að framkvæma vissar tæknilegar endurbætur á því. Við það eykst framleiðslugetan um allt að 40.000 tonnum á ári og aflþörfin um 75 MW. Viðræðum sem átt hafa sér stað milli RTA og Landsvirkjunar um þetta mál er lokið með samkomulagi sem jafnframt inniheldur ákvæði um endurnýjun á eldra rafmagnssamningi en það er afar mikilvægt. Með samkomulaginu hækkar orkuverðið og rekstur álversins verður tryggður til lengri tíma en ella eða til ársins 2037.

Staða skipulagsmála

Aðalskipulag fyrir sveitarfélögin austan Þjórsár, Rangárþings-Ytra og Ásahrepps, er staðfest með virkjununum þremur. Skeiða- og Gnúpverjahreppur staðfesti breytingu á aðalskipulagi, sem gerir ráð fyrir Hvammsvirkjun og Holtavirkjun, á fundi sínum þann 23. júní og má vænta að það öðlist staðfestingu umhverfisráðherra á næstunni. Flóahreppur hefur auglýst tillögu að aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir lóni Urriðafossvirkjunar (Heiðalón). Frestur til að gera athugasemdir var til 1. ágúst en búast má við að skipulagið fái endanlega staðfestingu í lok þessa árs eða byrjun árs 2009. Virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi ættu að liggja fyrir um mitt ár 2009 í síðasta lagi.

Titansamningar í dóm

Fyrir rúmlega áttatíu árum keypti Titan félagið undir forustu Einar Benediktsson, skálds, nær öll vatnsréttindi vegna virkjana í neðanverðri Þjórsá, en í kaupunum fylgdi einnig réttur til landafnota fyrir þessar virkjanir (Skarð, Hestafoss og Urriðafoss) og um málsmeðferð næðist ekki samkomulag um greiðslur fyrir land. Árið 1951 keypti ríkið þessi réttindi af Titan félaginu og lét þinglýsa þeim. Samkomulag er við ríkið um að Landsvirkjun hafi umboð til semja við landeigendur á grundvelli Titan samningsins, þó að ríkið hafi ekki látið vatnsréttindin af hendi.

Nú hefur það gerst að eigandi jarðarinnar Skálmholtshrauns hefur höfðað mál gegn ríkinu, Landsvirkjun og Flóahreppi en aðaldómkrafa er að vatnsréttindi ríkisins séu niður fallin fyrir vanlýsingu, þ.e. ríkið hafi ekki gætt þess að lýsa réttindum sínum skv. lögum 113/1952 um lausn ítaka í jörðum og séu réttindin því niður fallin. Málið hefur fengið flýtimeðferð hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en Atli Gíslason, hrl. og alþingismaður, fer með málið fyrir hönd landeigenda. Dóms er að vænta í haust en verði honum áfrýjað til Hæstaréttar má búast við endanlegri niðurstöðu í málinu undir lok ársins. Þá hefur einnig verið lögð fram kæra til úrskurðarnefndar skipulagsmála vegna málsmeðferðar á skipulagsbreytingum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Gera má ráð fyrir að það taki nefndina nokkrar vikur að komast að niðurstöðu. Samningar Landsvirkjunar við landeigendur um afnot af landi og um vatnsréttindi á þeim jörðum sem ekki falla undir Titan samninginn taka einnig fyrirsjáanlega lengri tíma en upphaflega var áætlað en Landsvirkjun mun freista þess að ljúka þeim sem allra fyrst.

Byrjað við Búðarháls

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram verður að áliti Landsvirkjunar ekki unnt að bjóða út byggingarframkvæmdir vegna virkjana í Þjórsá fyrr en í fyrsta lagi í byrjun næsta árs. Til að standa við annars vegar samkomulagið við RTA um orkusölu, innan þess tímaramma sem þar er settur, vegna framleiðsluaukningar í álverinu í Straumsvík og hins vegar við Verne Holding hefur Landsvirkjun ákveðið að hefja aftur framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, en þar eru öll leyfi fyrir hendi og því unnt að bjóða út framkvæmdir með mjög stuttum fyrirvara.

Landsvirkjun mun eftir sem áður halda ótrauð áfram undirbúningi virkjana í neðri hluta Þjórsár með það að markmiði að hrinda þeim í framkvæmd eins fljótt og unnt er. Fyrirtækið mun kappkosta að vinna að þessu markmiði í náinni samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir og stjórnvöld og leggja allt kapp á að ná samkomulagi við landeigendur um lands- og vatnsréttindi. Í því efni fara saman hagsmunir fyrirtækisins og íbúa á Suðurlandi.

 

 

Fréttasafn Prenta