Frétt

Bjallavirkjun og Tungnaárlón

10. september 2008

Til skoðunar í 30 ár

Um Bjallavirkjun og Tungnaárlón er fjallað í skýrslunni „Þjórsárvirkjanir - Mynsturáætlun um orkunýtingu á vatnasviði Þjórsár niður fyrir Búrfell“, sem unnin var fyrir Landsvirkjun og kom út í október 1980. Eldri rannsóknir voru m.a. á vegum Orkustofnunar.

Í mynsturáætluninni var gert ráð fyrir að Tungnaá yrði virkjuð við Bjalla og nýtti fallið niður í Krókslón ofan við Sigöldu. Einnig var gerð grein fyrir miðlun Tungnaár með lóni sem myndað yrði með stíflu í Tungnaá suðaustan við Snjóöldu. Miðlunin var nefnd Stórisjór, þar sem jarðfræðingar töldu að farvegur Tungnaár á þessum slóðum hefði áður verið stöðuvatn, sem síðan hefði fyllst af gosefnum. Væri þar ef til vill kominn Stórisjór sem getið er í annálum.

Á vegum iðnaðarráðuneytisins var unnin skýrslan „Innlendar orkulindir til vinnslu raforku“, sem gefin var út í maí 1994 (hvítbók). Í skýrslunni er fjallað um virkjunarkosti í vatnsafli og jarðgufu, þar á meðal Bjallavirkjun og Stórasjó (Tungnaárlón). Á þeim tíma var virkjunin áætluð um 70 MW og flatarmál lóna um 60 km2.

Á fyrstu mánuðum ársins 2000 lét Landsvirkjun vinna samantekt um rannsóknir gerðar 1967-1985 vegna Bjallavirkjunar og Tungnaárlóns.

Í byrjun árs 2002 var hafist handa við frumhönnun Bjallavirkjunar og tilheyrandi miðlun í Tungnaá. Í júní 2002 var gefin út skýrslan „Stórisjór – Bjallavirkjun – Tungnaársvæði, Jarðfræði og efnisrannsóknir. Samantekt um rannsóknir 1967-2000“. Hafist var handa um söfnun gagna, gerðar minni háttar jarðfræðirannsóknir, undirbúin kortagerð eftir loftmyndum o.fl.

Sótt um rannsóknarleyfi til iðnaðarráðuneytis

Landsvirkjun sótti þann 25.mars 2004, um rannsóknarleyfi á vatnasviði Tungnaár ofan við Sigöldustöð. Iðnaðarráðherra svaraði erindinu þann 24. september sama ár, og óskaði m.a. eftir nánari upplýsingum um fyrirhugaðar rannsóknir. Landsvirkjun sendi umbeðnar upplýsingar í bréfi til ráðherra dagsettu 23. febrúar 2005. Í því bréfi var jafnframt ítrekuð umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi. Ekkert svar hefur enn borist frá ráðuneytinu.

Frumhönnun virkjunar og lóns

Í desember 2005 kom út áfangaskýrslan „Bjallavirkjun og Tungnaárlón Framvinduskýrsla Rekstur, umhverfi og hagkvæmni virkjunar“. Frumhönnunarvinnu var fram haldið á árunum 2006 og 2007 en þeirri vinnu lauk í júní 2007 með útgáfu skýrslunnar „Bjallavirkjun og Tungnaárlón - Frumhönnun“. Gert er ráð fyrir að Tungnaá verði virkjuð við Bjalla og nýti fallið niður í Krókslón við Sigöldu. Einnig er gert grein fyrir hugsanlegri miðlun á Tungnaá með lóni sem fengið hefur vinnuheitið Tungnaárlón og myndað yrði með stíflu í Tungnaá suðaustan við Snjóöldu.

Í frumhönnunarskýrslunni er gerð grein fyrir tæknilegum og fjárhagslegum kostum virkjunarinnar og miðlunarlóns. Samanburður er gerður á mismunandi virkjunarleiðum með og án jarðganga. Niðurstöður eru þær helstar að hagkvæmast er að byggja virkjunina með jarðgöngum í stað yfirborðsvirkjunar eins og áður var stefnt að. Gert er ráð fyrir í öllum tilvikum að Tungnaárlón verði gert á undan eða samhliða virkjuninni. Niðurstöður sýna að bæði Bjallavirkjun og Tungnaárlón eru hagkvæmir virkjunarkostir. Tungnaárlón eitt og sér virðist vera mjög hagstæður kostur.

Verulegar breytingar hafa orðið á útfærslu Tungnaárlóns frá því að fyrstu hugmyndir um miðlunarlón á þessum slóðum voru settar fram. Stíflustæði hefur verið fært til, vatnsborð lækkað og umfang lóns minnkað. Tungnaárlón er staðsett á svipuðum slóðum og áður nefndur Stórisjór. Tungnaárlón yrði bæði aursöfnunarlón fyrir Bjallavirkjun og miðlunarlón sem nýttist öllum virkjunum neðar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.

Sett til skoðunar í rammaáætlun

Stefnt hefur verið að því að fá nefnda virkjunarkosti með í athugun annars áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Vegna þessa hefur nú á sumarmánuðum verið unnið að samantekt á eldri gögnum og lágmarksrannsóknum til að geta veitt þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna rammaáætlunar. Þessari vinnu lýkur á haustmánuðum.

Virkjunartilhögun

Bjallavirkjun


  

Yfirlitsmynd yfir fyrirhugaða staðsetningu
Bjallavirkjunar og veitulóns

Til að veita Tungnaá að Bjallavirkjun er gert ráð fyrir stíflu- og veitumannvirkjum í farvegi árinnar, nokkuð neðan við Hófsvað og fjallið Hnaus. Á þeim stað þar sem gert er ráð fyrir veitulóni Bjallavirkjunar er farvegur Tungnaár hallalítill. Veitumannvirkin munu því mynda lón sem teygir sig um 6 km upp eftir farvegi árinnar. Vegna ónákvæmni þeirra korta sem til eru af svæðinu er flatarmál veitulónsins óvíst, en ætla má að það yrði á bilinu 2-4 km2 og mesta dýpt um 5 m við botnrás. Stíflan við veitulónið mun verða um 400 m löng og mesta hæð hennar verður um 15 m.

Frá veitulóninu verða vatnsvegir að stöðvarhúsi Bjallavirkjunar bæði ofan- og neðanjarðar. Reiknað er með að stöðvarhúsið verði reist ofanjarðar, en að hluta til inni í fjallshlíðinni sunnan Krókslóns. Í því verður komið fyrir einum 46 MW hverfli. Virkjað fall verður um 58 m og hámarksafköst miðast við 90 m³/sek rennsli. Frárennsli stöðvarinnar verður um skurð út í Krókslón. Í um 5 km fjarlægð frá stöðvarhúsinu liggur Sigöldulína 4, milli Sigöldu og Kirkjubæjarklausturs.

Áhrifasvæði veitulóns Bjallavirkjunar nær bæði inn að jaðri Friðlands að Fjallabaki og inn á svæði á náttúruminjaskrá. Svæðið sem veitulónið þekur er að mestu leyti sandorpin hraun. Önnur mannvirki Bjallavirkjunar eru utan svæða á náttúruminjaskrá.

Tungnaárlón
Fjölmörg stíflustæði hafa verið athuguð í farvegi Tungnaár fyrir ofan fyrirhugaða Bjallavirkjun. Það stíflustæði sem talið hefur verið hagkvæmast er við Snjóöldu, þar sem áin rennur í um 200 m breiðum farvegi. Með tilliti til jarðfræði er þetta stíflustæði með þeim betri sem skoðuð hafa verið.

Yfirlitsmynd yfir fyrirhugað Tungnaárlón

Yfirlitsmynd yfir fyrirhugaða staðsetningu Tungnaárlóns.

Á lónssvæðinu rennur Tungnaá í dal milli tveggja móbergsfjallgarða, Tungnaárfjalla að suðaustan og Snjóöldufjallgarðs að norðvestan. Stíflumannvirki í Tungnaá yrðu tæplega 35 m há. Miðlunargeta lónsins verður um 535 Gl. Er þá miðað við að hæsta vatnsborð lónsins verði í 600 m y.s. Við það vatnsborð yrði flatarmál lónsins 45-50 km² (núverandi kort gefa ekki möguleika á nákvæmari mælingu) og samkvæmt mati á loftmyndum eru þar af um 60% nú vatn og aurar.

Tungnaárlón er á svæði sem er á náttúruminjaskrá.

Orkugeta
Orkugeta Tungnaárlóns og Bjallavirkjunar er áætluð um 660 GWh/ári.

Viðhengi
Yfirlitsmynd sem sýnir fyrirhugaða staðsetningu Bjallavirkjunar og Tungnaárlóns
Mynd sem sýnir svæði á náttúruminjaskrá og friðlýst svæði

 

Fréttasafn Prenta