Frétt

Áfram bilun í spennum í Sultartangastöð

10. september 2008

Á næstu dögum verður spennirinn skoðaður og ákvörðun tekin um hvernig staðið verður að viðgerð á honum. Ljóst er að nokkur tími mun líða áður en hann kemst í lag.

Í lok síðasta árs urðu bilanir á báðum vélaspennum í Sultartangastöð. Stöðin hefur einungis verið samtals fimm mánuði í rekstri síðan og þá með hálfum afköstum. Reynt hefur verið að gera við báða spennana og hafa sérfræðingar framleiðandans komið til landsins og séð um þær viðgerðir með dyggri aðstoð starfsmanna Landsvirkjunar.

Á næstu dögum verður hinn vélaspennirinn í Sultartangastöð sendur til verksmiðju framleiðandans í Frakklandi. Þar verður rafbúnaður hans endurnýjaður og spennirinn prófaður eins og um nýjan spenni væri að ræða. Gert er ráð fyrir að hann komi aftur til landsins í vetur og fari í rekstur í ársbyrjun 2009.

Kostnaðurinn við viðgerðir á vélaspennum Sultartangastöðvar er orðinn talsverður og fer yfir 200 m.kr. Tjón vegna framleiðslutaps hefur hins vegar verið lítið.

Þar sem mjög góð vatnsstaða er í lónum Landsvirkjunar nú á þessu hausti er gert ráð fyrir óverulegri, en þó einhverri skerðingu á afhendingu til viðskiptavina af þessum sökum. Líklegt er að sú skerðing verði eingöngu bundin við viðskiptavini sem kaupa ótryggt rafmagn og afgangsorku. Viðskiptavinir verða nánar upplýstir um stöðuna á næstu dögum þegar búið verður að kanna nánar rekstrarhorfur á komandi vetri.

Nánari upplýsingar um Sultartangastöð >>

Fréttasafn Prenta