Frétt

Blöndustöð hlýtur viðurkenningu Vinnueftirlitsins

24. október 2008

Fyrirmyndarfyrirtækin sem Vinnueftirlitið verðlaunaði voru:

  • Landsvirkjun, Blöndustöð
  • Héraðsverk, Egilsstöðum
  • Actavis, Hafnarfirði
  • Heilbrigðisstofnun Þingeyinga
  • Leikskólarnir Eyrarskjól og Sólborg Ísafirði

Verðlaunin voru veitt á ráðstefnu Vinnueftirlitsins sem bar yfirskriftina: Bætt vinnuumhverfi, betra líf – Áhættumat og forvarnir eru leiðin, sem fór fram á Grand hóteli 21. október 2008.

Í rökstuðningi Vinnueftirlitsins fyrir veitingu verðlaunanna kemur fram að í Blöndustöð sé rekin skýr starfsmannastefna sem taki mið af vinnuverndarsjónarmiðum.

Blöndustöð hlýtur viðurkenningu Vinnueftirlitsins

Fulltrúar Landsvirkjunar veita viðurkenningunni móttöku. Á myndinni eru frá frá vinstri:
Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri orkusviðs, Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri
Landsvirkjunar, Guðmundur R. Stefánsson, stöðvarstjóri Blöndustöðvar, Jónas Þ.
Sigurgeirsson, viðhaldsstjóri Blöndustöðvar, Snæbjörn Adolfsson, öryggistrúnaðarmaður
Blöndustöðvar og Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits Ríkisins.

Rökstuðningur vegna viðurkenningar til fyrirtækja
á Vinnuverndarráðstefnunni 2008

Landsvirkjun - Blöndustöð

Hjá Landsvirkjun – Blöndustöð vinna um það bil 13 starfsmenn. Þar er skýr starfsmannastefna sem tekur mið af vinnuverndarsjónarmiðum og þeim fylgt eftir með aðgerðum. Þar er virk öryggisnefnd sem fundar reglulega. Á starfsmannafundum er alltaf byrjað á að fara yfir stöðu mála varðandi öryggismál.

Blöndustöð var með í tilraunaverkefni Vinnueftirlitsins í gerð áhættumats 2005 og var vel að verki staðið þá, en stöðin endurtók eða yfirfór áhættumatið aftur 2007.

Í Blöndustöð er Landsvirkjun að innleiða OHSAS 18001 Stjórnkerfi fyrir öryggis og vinnuumhverfi. Rík áhersla er lögð á að undirverktakar sem koma inná svæði fyrirtækisins fylgi sömu öryggiskröfum og almennir starfsmenn stöðvarinnar. Dæmi eru til þess að yfirmenn stöðvarinnar hafi stöðvað vinnu undirverktaka vegna verklags.

Í þrjá mánuði yfir sumartímann starfa u.þ.b. 25 ungmenni í og við stöðina og lögð er áhersla á þau fái fræðslu og menntun í vinnuvernd áður en þau hefja störf. Mörg þessara ungmenna eru í sinni fyrstu vinnu og fá þar af leiðandi mikilvæga leiðsögn í upphafi síns vinnuferils.

Tafla sem sýnir slysalausa daga er í inngangi starfsmannabyggingar. Og eru starfsmenn þannig minntir beint á mikilvægi vinnuverndar.

Landsvirkjun Blöndustöð er að mati Vinnueftirlitsins góður vinnustaður þar sem vellíðan starfsmanna þeirra er höfð að leiðarljósi og eru forvarnir mikilvægur þáttur þar í og því veitum við þeim viðurkenningu hér í dag.

Viðurkenningarskjal Vinnueftirlitsins

 

 

Fréttasafn Prenta