Frétt

Ljósafossstöð 70 ára

1. nóvember 2007

Ljósafossstöð er elsta virkjuninin í Soginu. Rekstur hennar hófst þann 26. október árið 1937 með því að ræstar voru tvær vélasamstæður, samtalst með 8,8 MW afli. Þriðja vélin var sett upp árið 1944 og jókst þá afl stöðvarinnar um 5,5 MW.

Nokkur aðdragandi var að byggingu stöðvarinnar. Kaup á vatnréttindum hófust árið 1917. Til tíðinda dró árið 1933 þegar Alþingi setti lög um leyfi fyrir Reykjavíkurbæ til virkjunar í Sogi. Var lögð áhrersla á að virkjunin væri einnig ætluð nágrannabyggðum bæjarins. Samkvæmt lögunum ábyrgðist ríkisstjórnin allt að 7 milljón króna lán til verkefnisins.

Fáar ár eru jafn vel fallnar til virkjunar og Sogið. Í ánni er um 110 m3/s jafnt rennsli. Virkjað var með því nýta fall Ljósafoss sem myndaði útfall Úlfljótsvatns. Við það hækkaði yfirborð Úlfljótsvatns um 1 metra.

Framkvæmdir við Ljósafossvirskjun hófust vorið 1935. Byggingaverktaki var danska fyrirtækið Højgaard & Schulz. Verktæknin við byggingarframkvæmdirnar var fremur frumstæð og var virkjunin að mestu leyti reist með handafli. Verktakinn flutti til landsins vélknúna gröfu sem þótti mikið tækniundur á sínum tíma og auðveldaði mönnum eflaust störfin. Á gömlum myndum má þó sjá hvar verkamenn moka með skóflum sínum upp í vélskófluna.

Bygging Ljósafossstöðvar - verkamenn

Sjá má að frumstæðum aðferðum var beitt
við byggingu virkjunarinnar

Steypt var stífla rétt ofan við Ljósafoss og byggt stöðvarhús á árbakkanum neðan við fossinn. Að því voru lagðar tvær þrýstivatnspípur. Settar voru upp tvær vélasamstæður í stöðvarhúsinu, 4,4 MW hvor. Háspennulína var lögð til aðalspennistöðvar við Elliðaár, 45 km vegalengd.

Við gangsetningu stöðvarinnar árið 1937 var framboð rafmagns á höfuðborgarsvæðinu fjórfaldað. Með tilkomu stöðvarinnar skapaðist möguleiki á að nota rafmagnseldavélar í stað kolavéla en rafmagnið í Reykjavík frá Elliðaánum og fyrir tíma Ljósafoss var einkum notað til lýsingar. Til þess að auka nýtingu á raforku frá Ljósafossi gátu heimilin fengið eldavél í áskrift með rafmagninu. Sala eldavéla jókst margfalt og dafnaði stærsta raftækjaverksmiðja landsins, Rafha.

Gert var ráð fyrir því að raforkuframboðið væri ekki fullnýtt fyrr árið 1944-1945. Óvæntur raforkunotandi kom til sögunnar er erlent setulið kom til Íslands. Með raforkunotkun hersins og almennings gætti orkuskorts snemma á stríðsárunum. Var því afráðið að stækka stöðina sem fyrst. Torvelt var að fá vélbúnað til hennar vegna ófriðarins. Það tókst þó á endanum og gekk stækkunin rösklega fyrir sig, því gert hafði verið ráð fyrir þriðju vélasamstæðunni í stöðinni frá upphafi. Framkvæmdum við stækkunina lauk árið 1944 og fór afl stöðvarinnar við það í 15 MW.

Bygging Ljósafossstöðvar - inntak

Á þessari mynd er bygging stöðvarhússins vel á veg komin.
Í forgrunni sést hvar smíði inntaksmannvirkisins fer fram.

Bygging Ljósafossstöðvar - Stöðin

Á þessari mynd er bygging stöðvarinnar langt komin og
aðrennslispípurnar liggja að stöðvarhúsinu.

Ítarlegri upplýsingar um aflstöðvarnar í Soginu >>

Heimildir:
Helgi M Sigurðsson, Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi, Reykjavík 2002
Sogsvirkjunin, lýsing virkjananna í Sogi, Reykjavík 1965

 

Fréttasafn Prenta